143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

viðskiptaumhverfi landbúnaðarafurða.

[15:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Stefnan er sú að við gerum minna af því sem hv. þingmaður talar um, þ.e. að fella einhliða niður tolla, og gerum meira af því að gera tvíhliða eða marghliða samninga um að opna markaði fyrir þær afurðir sem við framleiðum í landinu og stóraukin eftirspurn er eftir, ekki bara í Evrópu heldur á mörgum öðrum mörkuðum. Þannig munu opnast leiðir fyrir þær afurðir sem við sækjumst eftir hingað heim til Íslands á sama tíma og við erum bæði með opnara og sterkara markaðskerfi.

Engar slíkar breytingar koma upp í hugann sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili en engu að síður tala menn mjög fjálglega um að hér sé allt í einhverri stirðnun og stöðnun. Það var alger stöðnun í þessum málaflokki á síðasta kjörtímabili en hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er einmitt með viðræður í gangi um að greiða fyrir auknum útflutningi á þessu sviði sem geta um leið fært okkur ný tækifæri hér heima fyrir ef horft er út frá sjónarhóli neytenda.