143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

samningar við kröfuhafa gömlu bankanna.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér þykir einum of langt gengið ef hv. þingmaður er farinn að hafa rangt eftir það sem ég sagði fyrir aðeins tveimur mínútum. Hann hélt því fram að ég hefði sagt að þetta væri allt flókið og kannski væri hægt að ná einhverju með skattlagningu.

Ég sagði það ekki. Þvert á móti sagði ég að nú þegar lægi fyrir að þessi ríkisstjórn væri að skattleggja slitabúin þó að síðasta ríkisstjórn hefði sleppt því en það breytti ekki því að þegar niðurstaða lægi fyrir, niðurstaða sem gerði afléttingu hafta mögulega, þyrfti þetta viðbótarsvigrúm að vera til staðar.

Ég hef ekki orðið var við neinn ágreining um það. Menn hafa kannski ólíkar skoðanir á því hversu mikið það svigrúm eigi að vera, hversu mörg hundruð milljarðar, en ef hv. þingmaður heldur því fram að slíkt þurfi ekki, að það sé bara hægt að aflétta höftum án þess að slíkt svigrúm myndist sem hluti af nauðasamningum, er hv. þingmaður að skapa sér mikla sérstöðu í þessum málum.