143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þessari spurningu hefur verið svarað með sérstakri lögbannsbeiðni sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram en hafnað var af sýslumanninum á Selfossi. Sú niðurstaða mun sæta kæru. Það er ágætt að fá þetta tilefni til að rifja aðeins upp samskipti við landeigendur á þessu svæði undanfarin missiri.

Í lok febrúar lagði ríkið fram drög að samkomulagi eftir áralöng samskipti vegna þessara mála, drög að samkomulagi ef það mætti verða til að leysa þetta mál, a.m.k. þar til mál um þessi efni mundu skýrast í víðara samhengi. Þar var boðið upp á að ríkið færi strax í og kostaði nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja vernd svæðisins með endurbótum á aðstöðu og innviðum Geysissvæðisins. Markmiðið væri að lagfæra ástandið, koma í veg fyrir að það yrði fyrir skemmdum og tryggja öryggi gesta á svæðinu.

Við það var miðað að farið yrði í framkvæmdirnar án tafar, eins og áður segir að þær yrðu kostaðar af ríkinu og henni fylgdi ítarleg áætlun um landvörslu á svæðinu. Gert var ráð fyrir að þessar aðgerðir yrðu unnar í samráði við landeigendur og stofnað til formlegs samráðs.

Við gerðum ráð fyrir því samkvæmt þessum hugmyndum að landeigendur mundu falla frá hugmyndum um hvers konar gjald inn á svæðið að minnsta kosti út næsta ár, þ.e. meðan almenn stefna um þessi efni væri að skýrast.

Það er auðvelt að greina frá því að þessum hugmyndum var alfarið hafnað enda virðast (Forseti hringir.) landeigendur fyrst og fremst ganga út frá því að þær verði að skila arði til landeigenda.