143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skuldaleiðrétting og lyklafrumvarp.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Tíminn leyfir ekki leiðréttingu á öllum þeim rangfærslum — svo ég nefni ekki þann skæting sem hv. þingmaður lætur iðulega fylgja í fyrirspurnum sínum — sem fram komu í fyrirspurn áðan.

Hvað varðar fyrstu spurninguna, eða þá spurningu sem hv. þingmaður kom að eftir inngang sinn um verðtrygginguna, hefur því þegar verið svarað hvar það mál er statt. Þegar sérfræðingahópur skilaði niðurstöðum sínum um afnám verðtryggingar, reyndar í tveimur hlutum þar sem báðir hlutar, bæði meiri hluti og minni hluti, voru þá sammála um mikilvægi málsins hófst vinna við úrvinnslu á því en stórum hluta þess var vísað inn í þá vinnu sem enn á sér stað um endurskipulagningu húsnæðiskerfisins á Íslandi. Það hlýtur hv. þingmaður að skilja að séu nátengdir hlutir, og þegar verið er að vinna að því að bæta húsnæðiskerfi landsins, í raun endurskilgreina það til að gera það sem best í stakk búið til að tryggja hagsmuni almennings í landinu, þá sé verðtryggingin eða það fjármálakerfi sem er við lýði nátengt því og þurfi að vera þar til skoðunar samhliða.

Hvað varðar upptalninguna á tölfræði vísa ég hv. þingmanni einfaldlega á kynningarefni sem liggur fyrir um þetta sem sýnir fram á að um er að ræða leiðréttingu á allri verðbólgu umfram það sem gat talist fyrirsjáanleg verðbólga og raunar jafnvel gott betur þegar menn taka heildaráhrifin inn í reikninginn. En af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um 20%, jú þá kannast ég við það að menn hafi bent á að dæmigert lán geti lækkað um 20% nú með nýtingu beggja leiða. Það var hins vegar mun erfiðara og ég skal alveg viðurkenna að er líklega dýrara að framkvæma þetta núna en það hefði verið ef minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefði staðið við það loforð sem hún gaf hátíðlega sem skilyrði fyrir því að fá að spreyta sig í þrjá mánuði. Verkefni þeirrar ríkisstjórnar var að ná 20% leiðréttingu lána. Til þess voru öll tækifæri á sínum tíma til að gera það hratt, gera það vel, gera það á hagkvæman hátt en það var svikið.