143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

staða efnahagsmála.

[15:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ásamt öðrum hv. þingmönnum í hv. fjárlaganefnd verið að fara yfir framkvæmd fjárlaga. Eðli máls samkvæmt er eilífðarverkefni að halda aga í fjármálum en þó verður að segjast eins og er að flest bendir til þess að við verðum réttu megin við núllið eins og lagt var upp með. Það er mjög ánægjulegt en við megum ekki gefa neitt eftir þegar kemur að aga í ríkisfjármálunum.

Grunnurinn að því að við getum aukið tekjur og bætt lífskjör er að hér sé góður gangur í efnahagslífinu. Ég hef vilja til að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vegna þess að mér hefur ekki fundist vera mikil umræða um þennan grunnþátt í sölum Alþingis að undanförnu. Þetta kemur okkur öllum við, ekki bara okkur sem hér erum inni heldur allri þjóðinni, og ég vildi fá að vita frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í þessu stutta spjalli hver staðan í efnahagsmálum sé núna. Hvernig standa málin varðandi verðbólgu, atvinnustig og horfur varðandi hagvöxt og fjárfestingu? Ekki síður spyr ég: Hver er staða okkar í samanburði við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við? Við megum ekki gleyma samanburðinum. Þrátt fyrir að við tökum á hinum ýmsu málum sem eru öll misjafnlega mikilvæg er þetta grunnurinn.

Ég vil þess vegna fá sjónarmið hæstv. ráðherra á stöðuna í efnahagsmálum, bæði í nútíðinni og sömuleiðis horfur.