143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

staða efnahagsmála.

[15:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru afskaplega jákvæðar fréttir sem við hljótum öll að gleðjast yfir. Það er forsenda fyrir góðum lífskjörum að við náum að auka kaupmáttinn í landinu og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra flytur okkur þau gleðitíðindi.

Það skiptir afskaplega miklu máli að við förum með þessar staðreyndir til fólks í landinu, látum fólk vita að þrátt fyrir allt erum við á réttri leið. Það er það sem skiptir máli. Það skiptir máli að við aukum bjartsýni meðal þjóðarinnar. Það er auðvitað eilífðarverkefni, við þurfum að auka hér fjárfestingu og gera enn betur þegar kemur að því að auka kaupmátt í landinu, en það er augljóst að fyrstu skref hæstv. ríkisstjórnar hafa verið góð. Það er augljóst að það skilar sér fyrir fólkið í landinu og það er mikið gleðiefni, virðulegi forseti. [Kliður í þingsal.]