143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

staða efnahagsmála.

[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Ég heyri að stjórnarandstaðan á erfitt með að sitja undir þessu [Hlátur í þingsal.] en þetta er staðreynd. Það er reyndar mjög jákvætt að fá það staðfest með sérstökum mælingum að sú bjartsýni sem hv. þingmaður vék að mælist einmitt meðal þjóðarinnar og það er bjartsýni um horfur í efnahagsmálum. Væntingavísitalan tekur stökk upp á við samhliða því að við náum tökum á verðbólgunni. Það er sérstakt ánægjuefni að hún skuli vera niður undir viðmiðunarmörkum Seðlabankans og reyndar er engin verðbólga í landinu þegar húsnæðisliðurinn er tekinn út úr myndinni.

Þetta er sú viðspyrna sem menn hafa leitað eftir. Samhliða því að við erum nú að greiða niður skuldir sveitarfélaga og ríkið komið í færi til að létta á skuldastöðu sinni er verðbólga lág, atvinnustig hátt, fjárfesting á uppleið og bjartsýni yfir öllu saman. Þess vegna á það ekki að (Forseti hringir.) koma neinum á óvart að kaupmáttur vex eins og spár gera ráð fyrir (Forseti hringir.) á þessu ári og inn í framtíðina.