143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[15:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alvarlegt ástand á húsnæðismarkaði nú og húsnæðisöryggi ungs fólks, millitekjufólks og lágtekjufólks er ógnað. Við vitum öll að húsnæði er ekki á viðráðanlegum kjörum. Kaup og leiga er einungis á færi þeirra efnameiri. Það er of mikið framboð á of stóru húsnæði og of lítið framboð af húsnæði af þeirri stærð sem fólk sækist helst eftir og það er neyðarástand á leigumarkaðinum.

Við þessar aðstæður er grundvallaratriði að takast á við þann vanda sem uppi er og það er óhjákvæmilegt að opinberir aðilar stígi inn og komi á almennum leigumarkaði, að búseturéttaríbúðum verði fjölgað og séð til þess að byggt verði vel staðsett húsnæði í heppilegri stærð. Það er besta leiðin til að tryggja húsnæðisöryggi, lækka húsnæðiskostnað og draga úr áhættu sem fylgir húsnæðiskaupum.

Þótt sveitarfélögin geti gert margt og hafi gert margt — og ég vil sérstaklega nefna verk meiri hluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins hér í Reykjavík sem hefur lagt fram ítarlegar áætlanir og sett fram hugmyndir um stórfellda uppbyggingu (Gripið fram í.) leiguhúsnæðis. Og vegna þess að hv. þingmaður kallar hér fram í um stöðuna í Hafnarfirði (Gripið fram í.) þá er hægt að rekja það að þar hefur líka verið sett fram verkefni af hálfu bæjaryfirvalda sem miðar að því að efna til samstarfs við frjáls félagasamtök, samtök launafólks, lífeyrissjóði, fyrirtæki og aðra þá sem hafa það að markmiði að byggja, reka eða fjármagna fjölbreyttar og hagkvæmar leiguíbúðir. En það sem felst í þessu frumkvæði er að sérstaklega er verið að skoða hvaða svæði eða lóðir henta til uppbyggingar af þessum toga og hvernig best er að standa að verkefnunum til að tryggja varanlegt húsnæðisöryggi þeirra sem kjósa að vera á leigumarkaði þannig að leigumarkaður sé raunveruleg lausn við húsnæðisvanda til lengri tíma litið.

Við í Samfylkingunni lögðum í haust fram tillögu um bráðaaðgerðir á leigumarkaði vegna þess að okkur þótti lítið ganga undan ríkisstjórninni. Vandinn er að það hefur lítið gerst síðan í haust og því vil ég inna ráðherra eftir: Hvað líður aðgerðum? Í haust lögðum við fram þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir á vegum markaðarins sem voru í fyrsta lagi að komið yrði á kerfi með nýjum húsnæðisbótum sem tækju mið af fjölskyldustærð og tekjum og tryggðu sambærilegan stuðning við leigjendur og eigendur húsnæðis, það yrði gert í samræmi við tillögur sem fyrir liggja. Þetta er almennt viðurkennd forsenda skilvirks leigumarkaðar og þess að leigumarkaður sé raunverulegur valkostur til langframa fyrir fólk á húsnæðismarkaði. Undirhópar sem hæstv. ráðherra hefur skipað um uppbyggingu á virkum leigumarkaði og hópur um uppbyggingu á skilvirkum félagslegum úrræðum er sammála um það grundvallaratriði að það verði eitt kerfi húsnæðisbóta með sambærilegum stuðningi milli eigenda og leigjenda. Fyrsta skrefið er að hækka húsaleigubætur þegar í stað.

Í annan stað lögðum við til í þingsályktunartillögunni í haust að ríkisstjórnin mundi gangast fyrir samkomulagi við sveitarfélög og aðila vinnumarkaðarins um veitingu stofnstyrkja til leigufélaga sem skuldbindi sig til langtímareksturs á leiguhúsnæði. Við sjáum nú í nýrri skýrslu ráðgjafarfyrirtækja sem unnið hafa fyrir verkefnastjórn ráðherra tillögur sem fela í sér útfærslu á slíkum stofnstyrkjum þegar um félagslegt húsnæði er að ræða. Enn og aftur höfum við ekki séð útfærslu af hálfu stjórnvalda eða ákvarðanir stjórnvalda um það hvernig unnið verður í þessa veru.

Í þingsályktunartillögu okkar sem við lögðum fram í haust lögðum við líka til að fjármála- og efnahagsráðherra mundi bjóða ónýttar lóðir ríkisins fram til byggingar leiguíbúða, að félagsmálaráðherra mundi setja Íbúðalánasjóði skilyrði um að sjóðnum yrði gert að koma íbúðum í útleigu eða selja þær til leigufélaga svo fljótt sem verða mætti og umhverfisráðherra mundi gangast fyrir endurmati á byggingarreglugerð til að greiða fyrir byggingu minni íbúða til leigu. Við höfum ekki séð efndir þessa, við höfum ekki séð útfærslu á því með heildstæðum hætti og er rétt að inna eftir því hvort vænta er ákvarðana í þessa veru.

Í sjötta lagi lögðum við til að fjármálaráðherra mundi leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp til að undanþiggja tekjur fjármagnstekjuskatti vegna útleigu eignaríbúða. Undir slíkar tillögur er sérstaklega tekið í skýrslu ráðgjafarfyrirtækjanna til verkefnisstjórnar ráðherra. Enn og aftur, það vantar aðgerðir. Ég tel ljóst að í öllum þeim skýrslum sem unnar hafa verið á undanförnum missirum sé fátt að finna sem ekki er að finna í þeim tillögum sem við lögðum fram hér í haust. Ég held að ekki sé hægt að afsaka aðgerðaleysi með skorti á upplýsingum. Þetta liggur allt fyrir og því vil ég spyrja ráðherra: Hvað líður aðgerðum? Hvað líður raunverulegum úrbótum? Mun ráðherra leggja til við gerð fjárlaga að fé verði veitt til (Forseti hringir.) að hækka stórlega húsaleigubætur svo hægt verði að koma á nýju sameiginlegu kerfi húsaleigu- (Forseti hringir.) og vaxtabóta undir nafni húsnæðisbóta?