143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[15:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst stærsta spurningin tengd húsnæðismálum alltaf vera sú hvort við Íslendingar höfum trú á því að einhvern tímann muni rísa hér húsnæðismarkaður þar sem hægt er að taka óverðtryggð lán á 3–5% vöxtum.

Ætli þetta verði einhvern tímann mögulegt á Íslandi? Mér finnst það vera grundvallarspurningin. Mér finnst umræðan um húsnæðismál svo oft vera um það hvernig við ætlum að takast á við afleiðingar þess að þetta hefur ekki verið hægt á Íslandi. Við erum núna í miðju kafi að fara að ræða skuldaleiðréttingar svokallaðar. Þær snúast um það að greiða sumum niður hluta af þessari verðbólgu eða verðtryggingu sem við neyðumst til að hafa í efnahagslegu ásigkomulagi okkar. Svo höfum við reglulega eytt talsverðu púðri í að ræða afnám verðtryggingar sem er líka bara það að ráðast á birtingarmyndina. Höfum við þá raunverulegu trú að hér muni einhvern tímann rísa heilbrigður húsnæðismarkaður? Ég held að of dýrt fjármagn hamli líka uppbyggingu á leiguhúsnæði.

Mér finnst orðið frekar brýnt að við snúum fókusnum að því að ræða grundvallaratriðið sem er dýrt fjármagn á Íslandi og of mikil áhætta í efnahagskerfinu. Það horfir kannski ágætlega við núna eins og kom fram í samtali hv. þingmanna og ráðherra hér áðan, stjórnarmeirihlutans, enda svo sem viðbúið að það mundi horfa betur við eftir svolítið djúpa kreppu. Markaðurinn hefur þó ekki þá trú að það sé til langs tíma. Við þurfum að fara í aðgerðir sem skapa stöðugleika á Íslandi til langs tíma og þá rís upp heilbrigður húsnæðismarkaður með heilbrigðum leigumarkaði. Ég held að við þurfum að ræða þessi grundvallaratriði og takast á við þau.