143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[16:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég bil byrja á því að segja að ég hef trú á því að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hafi í raun vilja til að breyta hér húsnæðismarkaði til framtíðar, en ég efast meira og meira um að það sé vilji annarra í ríkisstjórninni. Nýleg frumvörp um svokallaðar skuldaleiðréttingar eru besta birtingarmynd þess. Þar er ekki verið að færa niður skuldir lögaðila, og hvað felst í því? Í því felst að Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins, Félagsbústaðir og annað félagslegt húsnæði rekið af sveitarfélögunum, Félagsstofnun stúdenta og Byggingafélag námsmanna, þau leigufélög fá ekki niðurfærslu á skuldum sínum vegna leiguíbúða. Það eru því leigjendur sem eru sérstaklega teknir út fyrir sviga og njóta ekki ávinningsins af þeirri aðgerð.

Húsnæðismál eru flókin mál og það þarf að vanda til verka, en það liggur ljóst fyrir að til að hægt sé að byggja upp leigumarkað til langs tíma með húsnæðisöryggi fyrir fólk þarf að tryggja framboð af lóðum. Það eru uppi mjög metnaðarfull áform undir stjórn jafnaðarmanna í mörgum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, en það vantar til viðbótar lóðir og það þarf skýr skilaboð frá stjórnvöldum um aukinn fjárhagslegan stuðning til þeirra sem eru í leiguhúsnæði til að hann jafnist á við þann stuðning sem ríkið er tilbúið til að veita þeim sem kaupa sér eigin íbúð. Þetta jafnræði (Forseti hringir.) er forsenda þess að hér verði byggður upp leigumarkaður.