143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[16:03]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég held við séum öll sammála um að bæta fyrir það ástand sem uppi er á leigumarkaðnum. Eins og hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur hefur farið fram mikil vinna innan velferðarráðuneytisins varðandi vinnu við framtíðarskipan húsnæðismála. Hv. þingmaður sem hér stendur hefur átt sæti í þeirri verkefnastjórn sem unnið hefur að þeim málum í allan vetur og mun innan skamms skila af sér hugmyndum um hvernig við viljum sjá öruggan húsnæðismarkað, þar með talinn leigumarkað, byggðan upp hér á landi.

Herra forseti. Á dögunum var skýrsla greiningaraðila sem unnið hafa fyrir verkefnisstjórnina um framtíðarskipan húsnæðismála gerð opinber. Þar kom meðal annars fram að talsvert stór hluti húsnæðis er núna í skammtímaleigu til ferðamanna og kemur því ekki inn á almennan leigumarkað. Ein af hugmyndum verkefnastjórnarinnar og greiningaraðila er að lækka tekjuskatt af leigutekjum fyrir þá sem vilja leigja húsnæði til langs tíma. Það tel ég góðan hvata til að koma leiguhúsnæði inn á almennan leigumarkað og tek heils hugar undir þær tillögur.

Í tillögunum er einnig fjallað um þá hugmynd að ríkið veiti stofnstyrki til byggingar á leiguhúsnæði í leigufélögum sem uppfylla ákveðin skilyrði. Jafnframt er hugmyndin sú að sveitarfélög kæmu með stofnstyrk, t.d. í formi lóða eða afsláttar af gatnagerðargjöldum. Einnig þurfa leigufélögin sjálf að leggja sinn hluta út.

Samkvæmt greiningaraðilum getur sú aðferð lækkað leiguverð um allt að 20% og finnst mér það afar jákvætt. En undanfarin ár hefur leiguverð sífellt hækkað og sífellt erfiðara verður fyrir leigjendur að ná endum saman. Auk þessa er nefnt í skýrslum greiningaraðila að nauðsynlegt sé að lækka byggingarkostnað og vinna er hafin í ráðuneyti umhverfis- og auðlindaráðherra við að endurskoða hana. Það getur haft þau áhrif að leiguverð lækki.

Jafnframt er fjallað í tillögum verðtryggingarhóps um breytingar á vaxtabótakerfinu og nauðsynlegt er að mínu mati að samþykkja þær hugmyndir um tillögur að nýju húsnæðisbótakerfi þannig að komi öllum heimilum til góða.

Þannig að ég svari orðum hv. þm. (Forseti hringir.) Guðmundar Steingrímssonar: Já, ég er mjög bjartsýn á að okkur takist að byggja hér upp öruggt (Forseti hringir.) húsnæðiskerfi til framtíðar eftir alla vinnuna sem (Forseti hringir.) farið hefur í þá vinnu innan (Forseti hringir.) velferðarráðuneytisins í vetur.