143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[16:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að halda áfram þar sem ég skildi við síðast og halda áfram með spurninguna og forsendurnar úr þeirri ræðu.

Við tölum um húsnæðismál. Fíllinn í herberginu er að útfærsla verðtryggðra húsnæðislána, neytendalána, þ.e. húsnæðislána frá 2001, er óljós. Við erum að bíða eftir úrskurði frá EFTA-dómstólnum og það er dómsmál í gangi á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna sem Íbúðalánasjóður biður um að fá að vísa frá. Ég spyr: Forsendurnar — hvað gerist ef þessi útfærsla verður dæmd óréttmæt? Þarf að grípa til neyðarlaga? Hvað þýðir mikil niðurfærsla á þessum skuldum? Ef mikil niðurfærsla verður á skuldunum þá verður neyðin náttúrlega mikil en á móti kemur að verð á húsnæði lækkar og leiguhúsnæði samhliða því þannig að forsendurnar eru ekki til staðar nema við vitum hvað kemur í kjölfarið á því, hvort útfærslan á verðtryggingu húsnæðislána er lögleg eða ekki og hvernig við ætlum að taka á því. Það er því lykilatriði að við fáum það á hreint nú.

Hæstv. innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, skapaði svigrúm núna rétt fyrir jól með lögum um að ekki mætti bera fólk út úr húsnæði sínu ef það er með lán á þessum grundvelli. Það svigrúm gildir fram í september. Spurningin er hvort við eigum þá ekki að nýta þetta svigrúm samhliða því að hæstv. ráðherra lagði líka fram lög síðasta sumar um að flýtimeðferð ætti að vera á dómsmálum sem tækju til þessara þátta, verðtryggingar og gengistryggingar á húsnæðislánum. Ég spyr húsnæðismálaráðherra: Hvað ætlar hún að gera? Ætlar hún að grípa í taumana hjá Íbúðalánasjóði sem er í eigu ríkisins og benda á að það væri nú kannski best fyrir íslenskt samfélag að við fengjum það á hreint fyrir dómstólum (Forseti hringir.) hvort þessi útfærsla á verðtryggðum húsnæðislánum er lögleg? Að Íbúðalánasjóður (Forseti hringir.) hætti að biðja um frávísun á þessum málum? (Forseti hringir.) Getur hæstv. félags- (Forseti hringir.) og húsnæðismálaráðherra ekki gripið í taumana?