143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skóli án aðgreiningar.

[16:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að vekja athygli á því mikilvæga máli sem skóli án aðgreiningar er.

Skóli án aðgreiningar eða það hugtak og sú hugsun sem þar birtist á sér nokkuð langa sögu í íslensku skólakerfi og byggir, eins og reyndar kom ágætlega fram, á því að allir nemendur hafi jöfn eða jafngild tækifæri til að mennta sig á sínum forsendum. Hugtakið og hugsunin byggir á virðingu fyrir fjölbreytileika, fyrir því að við erum ekki öll eins og að skólastarfið eigi að ná til breiðs hóps, í raun og veru allra, svo að sérþörfum þeirra sem við þær búa sé mætt. Þannig tryggjum við að við nýtum sem best mannauðinn, að allir fái tækifæri og hver og einn geti fundið sér verkefni við hæfi. Það er mjög mikilvægt.

Það skiptir máli hvernig sú stefna er framkvæmd. Eitt er það hvernig við orðum hana og tölum um hana, annað er það hvernig við síðan vinnum á grundvelli hennar. Það er nauðsynlegt öðru hverju að framkvæma mat á því og ég held að það skipti þá verulega miklu máli að benda á verkefni sem nú er í gangi og á rætur sínar að rekja til viðræðuáætlunar Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara og launanefndar sveitarfélaganna, og á grunni þeirrar áætlunar náðist samkomulag á milli þessara samningsaðila og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að farið yrði í sameiginlega greiningu á framkvæmd skóla án aðgreiningar. Það er starfandi verkefnastjórn og það er verkefnastjóri sem leiðir vinnuna og þarf að skoða stefnuna frá öllum hliðum og alla þætti hennar. Þetta er því viðamikið verkefni og við eigum ekki von á því að fá niðurstöðuna fram fyrr en á árinu 2015. Það sem skiptir máli er að vanda vel til verka af því að um er að ræða alveg gríðarlega stórt mál í samfélagi okkar.

Vegna þess sem hér var spurt af hálfu hv. þingmanns tel ég rétt að nefna og árétta að lög um grunnskóla gera ráð fyrir því að foreldrar eigi möguleika á því að senda börn sín í sérskóla. Það er þó háð mati sérfræðinga skólans, sveitarfélaganna, foreldranna sjálfra. Ég get tekið undir þær skoðanir sem komu fram hjá hv. þingmanni að þetta sé einn þeirra þátta sem þarf að skoða afskaplega vel. Ég hef heyrt frá foreldrum sem hafa viljað koma börnum sínum í sérskóla og vilja það frekar og hafa átt erfitt með það. Ég vænti þess að við fáum sérstaklega mat á þeim þætti málsins.

Ég vil líka nefna að þegar horft er á íslenska skólakerfið og grunnskólann sjáum við í rannsóknum og skýrslum, niðurstöðu PISA og samræmdu prófanna, að breiddin í frammistöðu nemenda á Íslandi er minni en víðast annars staðar. Dreifingin hefur verið þannig að mestur fjöldi nemendanna er um miðjuna en fáir efst og fáir neðst. Þetta er svolítið ólíkt því sem við sjáum víða annars staðar og það er ekki að sjá að sú dreifing hafi breyst mikið á undanförnum árum. Það má jafnvel túlka þá niðurstöðu sem við sjáum úr þeim prófum og rannsóknum að við framkvæmd stefnunnar skóli án aðgreiningar þurfi að taka meira tillit þess hóps nemenda sem raðast neðst og efst, sem eru kannski 20% á hvorum stað. Ég held að ýmislegt bendi til þess að þarna þurfum við að auka og skerpa á athygli okkar.

Virðulegi forseti. Það sem skiptir síðan mestu máli er, að ég held, að góður samhljómur sé um markmiðin sem eru að baki skóla án aðgreiningar, að allir eigi að fá tækifæri, þau eigi að vera jöfn, að hver og einn eigi að fá að mennta sig á sínum forsendum. Um leið skiptir máli að við séum sátt við framkvæmdina, að við teljum okkur vera að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram, því að það er ekki góður bragur á því ef við höfum stefnu í orði en náum ekki að fylgja henni fram á borði.