143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skóli án aðgreiningar.

[16:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu í þinginu og þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur málshefjanda og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Ég held að við séum öll sammála um að það eigi að vera grundvallarregla að foreldrar og viðkomandi nemendur eigi rétt á kennslu í heimaskóla eða hverfisskóla og að ekki sé hægt að vísa börnum á sérdeildir eða sérúrræði án þeirra vilja, þannig að maður snúi dæminu við. Síðan er hugsanlegt að menn óski eftir því að komast í ákveðnar séraðstæður og þá finnst mér að það eigi að ræða og leysa af sérfræðingum og viðkomandi foreldrum svo að um raunverulegt val sé að ræða.

Við erum að tala um að hafa skóla sem er fjölbreytilegur, sem tekur á móti ólíkum nemendum, en þegar við búum til mörk á milli nemendahópa endar alltaf með að þau mörk eru alls staðar óskýr. Hvenær er nemandi fatlaður? Hversu mikið er hann fatlaður? Hversu miklar sérþarfir hefur hann? Við getum aldrei flokkað í hópa og sagt: Þessir eiga alltaf og endalaust saman. Það er alveg klárt að til að geta náð markmiðum skóla án aðgreiningar þarf ákveðið umhverfi og ákveðnar aðstæður, ákveðin úrræði eða miðla til þess að geta sinnt kennslunni. Ég held að þar liggi vandamálið í dag. Við eigum ágætlega menntaða kennara, við gætum fylgt því betur eftir, við þurfum að veita þeim aðstoð, tryggja stoðþjónustuna þannig að valið verði raunverulegt.

Ég held að almennt séð ef við ætlum að skoða stöðu þeirra sem búa við einhverjar skerðingar, hvort sem þær eru þroskalegar eða líkamlegar, eigum við að tryggja að komið sé til móts við þarfir þeirra til jafns við þarfir þeirra sem hafa sérgáfur á einhverju sviði eða sérstaka hæfileika eða eru meira hneigðir til tónlistar en stærðfræði o.s.frv. Það er einstaklingsmiðuð kennsla sem við eigum að keppa að. Það er auðvitað ákveðin útópía að halda að við getum mætt öllum, en engu að síður (Forseti hringir.) getum við komist býsna langt með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.