143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skóli án aðgreiningar.

[16:47]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu sem mér finnst einstaklega áhugaverð. Hér erum við að ræða um skóla án aðgreiningar og um valfrelsi foreldra. Ég var búin að skrifa ræðu en ég ætla að tala bara út frá mínu eigin brjósti.

Ég starfaði sem leiðbeinandi og grunnskólakennari í um 12 ár áður en ég kom inn á þing og einnig er ég móðir barns sem er með fötlunargreiningu. Mér finnst einstaklega mikilvægt að allir nemendur hafi aðgang að skóla án aðgreiningar en að hlustað sé á foreldra ef þeim finnst ástæða til þess að barn þeirra sæki sérskóla. Þarna er ég eingöngu að hugsa um það sem barninu er fyrir bestu vegna þess að ég hef í starfi mínu og í kringum mig stundum séð að ekki þrífast allir innan grunnskólans og þurfa sértækari stuðning.

Mér er mjög minnisstætt eitt dæmi sem komst í fjölmiðla um barn sem sóttist eftir því að komast í sérskóla og þurfti að berjast fyrir því. Mig minnir að ástæðan hafi verið sú að að þetta hafi snúist um félagslegu málin, að vera meðal jafningja. Mér finnst það mjög mikilvægt vegna þess að börn verja miklum tíma dagsins í skóla og félagslegi þátturinn finnst mér skipta afskaplega miklu máli.

Mig langar að nefna að lokum fyrirkomulag sem hefur reynst mjög vel, það eru venjulegir grunnskólar með sérdeild innan veggja þar sem nemandinn hefur þá bæði aðgang að þessum almenna grunnskóla, skóla án aðgreiningar, og fær stuðning sérfræðinga í fötlunargreiningum þegar á þarf að halda.