143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skóli án aðgreiningar.

[16:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þeim sem hér hafa tekið til máls og eru nú meðal annars að óska eftir slíkri umræðu. Óskin er líka sú að við séum sívakandi yfir því að skólinn, hvort sem það er skóli án aðgreiningar eða annars konar skóli, sé alltaf í umræðunni, m.a. á hvern hátt við erum að vinna vinnuna þar, hverjir koma að og hvaða hugmyndafræði ræður ríkjum. Það breytta samfélag sem við búum í kallar á aðkomu foreldra með öðrum hætti en áður var. Margir foreldrar eru þenkjandi með öðrum hætti og vilja taka meiri þátt og leggja meiri áherslur. Þá er líka hægt að velta fyrir sér aðkomu þeirra sem eru enn eldri, afa og ömmu. Þekking þeirra og reynsla gæti líka nýst okkur.

Við þurfum alltaf að velta fyrir okkur hvort breytingar í skólastarfi séu óhjákvæmilegar. Hvaða markmiðum samfélagsins eiga skólarnir að þjóna, og hvað erum við að hugsa til langframa? Ég tek undir það að fjölbreytileikinn í skólunum skiptir máli, einfaldlega vegna þess að samfélagið er þannig byggt upp. En hugmyndafræðin sem liggur að baki má aldrei verða því yfirsterkari að nemandinn og valfrelsi foreldranna fyrir hönd barna sinna ráði. Við getum ekki sagt: Þetta er bara svo ágætlega gott eða fjandi gott að það þarf ekkert að huga að þessu frekar, við þurfum bara að lagfæra eitthvað innan húss.

Við þurfum að hafa sífellda umræðu um þetta. Foreldrar, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, telja sig vera sérfræðinga í börnum sínum — og eru það. Kennarar hafa stundum sagt: Ætlar trésmiðurinn að fara að (Forseti hringir.) segja mér hvernig ég á að kenna? Vill hann að ég segi honum hvernig á að leggja parket? Þá segi ég samt: Tökum tillit til óska foreldra um frelsi til handa börnum sínum. (Gripið fram í: Þetta er fjandi gott.)