143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

einkavæðing ríkiseigna.

448. mál
[17:13]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að fá tækifæri til þess að svara spurningum um það efni sem hér um ræðir.

Hvað varðar fyrri spurningu fyrirspyrjanda er ekki, eins og hv. þingmaður gat um, fjallað sérstaklega um einkavæðingu ríkiseigna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Engar ákvarðanir hafa verið teknar hvað þetta varðar og afstaða verður því tekin til slíkra verkefna þegar og ef til þeirra kemur. Almennt séð kemur til greina að selja einhverjar ríkiseignir á kjörtímabilinu og ætti raunar ekki að þurfa að taka það fram, því að m.a. má benda á að í gildi eru lög nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þar er fjármála- og efnahagsráðherra veitt heimild að uppfylltum ákveðnum skilyrðum til þess að selja eignarhlut ríkisins í Arion banka, Íslandsbanka, hluti umfram 70% í Landsbankanum og eignarhluti ríkisins í sparisjóðunum. Þó er áréttað að engar ákvarðanir hafi verið teknar um slíka sölu til þessa. Þetta er sem sagt frá síðasta kjörtímabili, frá síðustu ríkisstjórn.

Í febrúar 2012 skilaði starfshópur á vegum þáverandi forsætisráðherra tillögum að því með hvaða hætti standa skyldi að sölu eignarhluta ríkisins í fyrirtækjum. Ekki er útilokað að þær tillögur yrðu hafðar til hliðsjónar við gerð frumvarpa um sölu eignarhluta ríkisins í hlutafélögum. Þar er sérstaklega fjallað um hlutverk Alþingis annars vegar og framkvæmdarvaldsins hins vegar.

Hvað varðar síðari spurningu fyrirspyrjanda er ekki sérstaklega fjallað um einkavæðingu tiltekinnar starfsemi sem nú er sinnt af ríkinu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Almennt séð er það ætíð háð margvíslegu mati hverju sinni hvort rétt sé að fela einkaaðilum með samningum að annast verkefni sem áður voru á hendi ríkisins. Um hugsanlega einkavæðingu einstakra verkefna er hins vegar rétt að beina fyrirspurnum til viðkomandi fagráðherra. Ég sem forsætisráðherra mundi síðan taka afstöðu til slíkra verkefna þegar og ef til þeirra kæmi.

Með vísan til framangreinds má því segja að stefna fyrri ríkisstjórnar, sem hv. fyrirspyrjandi átti sæti í sem ráðherra, hafi falið í sér meiri einkavæðingaráform en þessi ríkisstjórn hefur lagt drög að til þessa. Stefna um sölu ríkiseigna á síðasta kjörtímabili lá einna helst fyrir í lögum nr. 155/2012, um sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, sem ég gat um áðan. Þar veitti Alþingi heimild til sölu tiltekinna eignarhluta að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Síðan tók þáverandi forsætisráðherra undir þau meginsjónarmið sem fram komu í skýrslu um sölu eignarhluta. Þar var þó ekki sett fram stefna um hvað selja ætti, heldur hvaða prinsipp ættu að liggja að baki því ef ákveðið yrði að selja. Í tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar er tekið undir þau prinsipp, auk þess sem lagt er til að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi forgöngu um að flokka eignarhlut í félögum og fleira eftir því hvort vilji sé til að selja þá eða ekki. Þannig yrði til eins konar rammaáætlun um sölu eða ekki sölu ríkiseigna.

Í 6. gr. fjárlaga hafa heimildir fyrir sölu eignarhluta verið settar fram. Í fjárlögum 2010, í fyrstu fjárlögum síðustu ríkisstjórnar, var heimild til að selja hlutabréf í Hitaveitu Akraness og Borgarbyggð og Endurvinnslunni, auk sparisjóða. Í fjárlögum 2011, 2012 og 2013 var áfram heimild til að selja hluta í Endurvinnslunni, auk sparisjóða.

Dæmi um einkarekstur sem fyrrverandi ríkisstjórnir hafa samþykkt eða viðhaldið, þ.e. verkefni sem ríkið greiðir fyrir en eru framkvæmd af einkaaðilum, eru t.d. Verslunarskóli Íslands, Heilsugæslan í Salahverfi í Kópavogi og rekstur hjúkrunarheimila. Þar er Sóltún mjög gott dæmi og mætti nefna fleiri dæmi, sem sagt heimili rekin af Hrafnistu o.s.frv. Einnig mætti nefna sem dæmi þá breytingu sem varð með því þegar Vegagerðin fór í auknum mæli að bjóða út verk og kaupa þjónustu af einkafyrirtækjum. Þannig mætti raunar lengi telja.

Eins og hv. þingmaður heyrir eru fyrirliggjandi áform núverandi ríkisstjórnar um einkavæðingu því ekki jafn umfangsmikil og þau sem síðasta ríkisstjórn hafði kynnt, en að sjálfsögðu eru menn alltaf opnir fyrir því að tryggja almenningi sem mesta og hagkvæmasta og besta þjónustu á sem bestu verði.