143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

stuðningur við listdansnám.

399. mál
[17:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni fyrirkomulag opinbers stuðnings við listdanskennslu. Til að fara mjög hratt yfir sögu má segja að þegar kemur að listdanskennslu á framhaldsskólastigi var hér opinber skóli, Listdansskóli Íslands. Síðan var farið í einkavæðingu á þeim skóla og búið til það kerfi að hér eru nokkrir listdansskólar sem kenna listdans á framhaldsskólastigi. Þeir hafa fengið fjármuni frá ríkinu í gegnum þjónustusamninga, þó ekki allir sem hafa sótt um og þetta er kannski sama vandamál og við höfum til að mynda kynnst sem þekkjum Tónlistarskólann í Reykjavík, að skólum hefur fjölgað en kakan sem er til úthlutunar fer ekki að sama skapi stækkandi. Þá koma upp sjónarmið hvað varðar jafnræðisreglu og annað milli skóla og erfitt getur stundum reynst að setja faglega viðmiðun um hvernig staðið skuli að úthlutun.

Ég ætla ekki endilega í sögulega upprifjun en þetta er nauðsynlegt til að skilja stöðuna. Eitt af því sem hefur verið greint var skýrsla sem var unnin á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins af Anne Bamford um listgreinafræðslu á Íslandi þar sem er farið yfir listgreinakennslu vítt og breitt og margt mjög gott sem kom út úr þeirri skýrslu, mjög jákvætt fyrir listgreinakennslu. Það er hins vegar nokkuð ljóst að það er ekki jafn stuðningur, hvorki af hálfu ríkisins né sveitarfélaga sem er hinn hluti hins opinbera við listdans og til að mynda við tónlist, svo við tökum það dæmi. Það eru sögulegar ástæður fyrir því og erfitt að fara í aðgerðir til að rétta slíkan hlut á einu bretti en það er ljóst að svona er þetta. Við horfum á að það er ákveðinn stuðningur frá ríkinu við listdanskennslu á framhaldsskólastigi og það er í takt við það að ríkið stendur undir kennslu almennt á framhaldsskólastigi. Síðan er allt óvíst um það hvernig sveitarfélögin styðja við listdanskennslu. Nú er ég ekki með algera yfirsýn yfir það en það er alls ekki alls staðar sem sveitarfélögin styðja við listdanskennslu, enda er það engin skylda.

Listdansskólarnir kenna hins vegar samkvæmt aðalnámskrá. Ég velti líka upp kynjasjónarmiðum í því. Það er erfitt að meta ólíkar listgreinar en við vitum að um 99% nemenda þessara skóla eru stúlkur og skólarnir og þessi kennsla njóta ekki sambærilegs stuðnings við ýmsar aðrar listgreinar. Mig langar því að inna hæstv. ráðherra eftir framtíðarsýn hans, hvort hann telji til að mynda að atvinnuvegaráðuneytið eigi að stíga inn í þetta mál, taka meira frumkvæði í málinu (Forseti hringir.) og jafnvel setja reglugerð eða eitthvað slíkt um fjármögnun listdans, bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga.