143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

stuðningur við listdansnám.

399. mál
[17:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar löggjöf um málið er það rétt sem hv. þingmaður benti á að taka þarf afstöðu til þess hvort það sé árangursríkara að vera með eina almenna heildarlöggjöf eða sérlöggjöf um hverja listgrein. Ég get ekki á þessum tímapunkti nákvæmlega fullyrt um hvort sé betra, við þurfum að skoða það. Ég tel að báðar leiðirnar hafi ýmislegt sér til ágætis. Með því að hafa sérstaka löggjöf um hverja grein geta menn sniðið hana alveg sérstaklega að þörfum þeirrar greinar en með almennum lögum geta menn líka með almennum sjónarmiðum lagt grunn þannig að það þurfi ekki í hvert skipti sem bætist við til dæmis listgrein að semja ný sérstök lög þar um.

Að sjálfsögðu yrðu í slíkri vinnu kallaðir að allir þeir aðilar sem hlut eiga að máli og ég nefndi það í fyrri ræðu minni að til dæmis yrði Samband íslenskra sveitarfélaga kallað að því samráði, enda snýr málið í það minnsta að hluta að því. En þar kemur einmitt að fjármögnunarþættinum. Við þekkjum það því miður allt of vel hvernig farið hefur verið með fjármögnun á framhaldsskólastiginu hjá tónlistinni og þar hefur staðið yfir deila milli ríkisins og sveitarfélaganna. Það hefur reyndar verið uppi mismunandi skilningur af hálfu sveitarfélaganna um það hvað fólst í því samkomulagi og það er nauðsynlegt að það sé skýrt þannig að enginn vafi sé á því að þar er ríkið með sínu fjárframlagi ekki að taka að sér þann rekstur heldur er verið að bæta við og auðvelda sveitarfélögunum verkefnið. Það getur ekki verið þannig, eins og er alla vega skilningur hjá einhverjum hvað það mál varðar, að ríkið geti fjármagnað alla starfsemina en aðrir borið á henni ábyrgð og rekið hana.

Ég vil ítreka þakkir mínar fyrir þessa umræðu. (Forseti hringir.) Það er mikilvægt fyrir svo margra hluta sakir að við eflum lagaumgjörðina og alla starfsemi okkar á listasviðinu.