143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af málum tengdum Evrópusambandinu.

419. mál
[17:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Fyrsta spurningin er þessi:

„Telur ráðherra miðað við nýlega birta úttekt á fréttaflutningi af Evrópusambandsmálum að fleiri neikvæðar fréttir séu fluttar en jákvæðar?“

Þá er fyrst til að taka, virðulegi forseti, að ákveðinn vandi er hér á höndum sem snýr að því hvort efnislega séu margar neikvæðar fréttir af ESB, viðræðum við það, samskiptum Íslendinga við sambandið, sem endurspeglast til dæmis í hörðum deilum um fiskstofna og annað slíkt, sem kann að fjölga mjög neikvæðum fréttum þar um. Eins hefur ástand mála innan ESB, sérstaklega á evrusvæðinu, verið erfitt efnahagslega. Því eru líkur á að margar neikvæðar fréttir berist af því. Ég er viss um að þetta skilur hv. þingmaður mætavel, enda ágætur sérfræðingur á þessu sviði.

Það er þó þannig að það er kannski ekki bara spurt um fjölda slæmra eða góðra frétta, það gengur misvel auðvitað eins og lög gera kannski ráð fyrir, en ég hef tekið eftir því þegar ég skoða tölurnar hvað varðar fréttaflutning frá Ríkisútvarpinu um aðildarviðræðurnar, að þegar ég horfi til dæmis á fréttir um aðildarviðræður við ESB og skoða þær eftir tímabilum, þá er það áhugavert að gengið hefur betur í aðildarviðræðunum á tímabilinu febrúar 2013 fram í apríllok 2013, að það er eini tíminn þar sem fleiri jákvæðar fréttir eru af aðildarviðræðunum en á öðrum tímabilum, annars eru alltaf fleiri neikvæðar fréttir. Ég les því út úr þessu að það hefur gengið betur í viðræðunum.

Eins sé ég þegar ég skoða þessa samsetningu að umfjöllun eða fréttir um samskipti, samstarf Íslands og ESB, að eini tíminn sem er líka þannig að fleiri jákvæðar fréttir eru en neikvæðar er einmitt tímabilið frá mars 2013 fram í apríllok 2013 sem aftur endurspeglar það að á þeim tíma hefur sennilega gengið betur í samskiptum okkar og þess vegna fáum við fleiri jákvæðar fréttir.

Sama gildir almennt um ESB, stöðu mála þar, að á tímabilinu febrúar 2013 fram í maí 2013 gengur sennilega betur hjá ESB, við fáum því fleiri jákvæðar fréttir þar að lútandi.

Þetta kemur alla vega fram þegar maður horfir á þessa tölfræði. Nú kann að vera að einhverjir hafi aðra skoðun á því hvað þarna er á ferðinni. Ég tel að þetta sé líkleg skýring sem ég ber hér fram.

Önnur spurningin er:

„Telur ráðherra að Ríkisútvarpið tali oftar við stjórnmálamenn sem eru andstæðir aðild en þá sem hafa jákvætt viðhorf til aðildar?“

Ég skoðaði skýrsluna um talningu á álitsgjöfum um ESB eftir fyrirtækjum og stofnunum. Utanríkisráðuneytið er þar efst á blaði. Við það var talað 104 sinnum, næstur var stjórnmálaflokkurinn Vinstri hreyfingin – grænt framboð 98 sinnum, Sjálfstæðisflokkurinn 88 sinnum, Framsóknarflokkurinn 81 sinni, ESB 69 sinnum, Samfylkingin 63 sinnum, en á þeim tíma var hv. fyrirspyrjandi í utanríkisráðuneytinu og telst frekar þar með en hjá Samfylkingunni, en ég er samt ekki nákvæmlega viss hvernig þetta er sundurbrotið. (ÖS: Hugsanlega tvítalið.) Gæti verið, en ég get ekki fullyrt það endilega að það sé svo að þeir hafi af hálfu ríkisstjórnar viljað sjá einhvern mun þarna á. Ég bendi á að sá flokkur, Vinstri grænir, sem kemur næstur á eftir utanríkisráðuneytinu er með töluvert fleiri viðmælendur en Sjálfstæðisflokkurinn, svo dæmi sé tekið. Allt á þetta sér sínar eðlilegu skýringar.

Þegar horft er til þeirra sem eru nafngreindir sem viðmælendur, ef horft er á þá 15 einstaklinga sem oftast er talað við og reynt að skipta því upp, slæ ég á að það séu sex sem eru augljósir andstæðingar, sex sem eru augljósir stuðningsmenn. Svo neita ég að líta á forseta Íslands sem álitsgjafa þannig að ég set hann aðeins til hliðar. Síðan eru þingmenn Vinstri grænna — eins og kannski fleiri á ég svolítið erfitt með að átta mig á hvar, sennilega á Ríkisútvarpið það líka, nákvæmlega á að setja þá í þessa umræðu, ég held þeim til hliðar. Þá eru þetta sex og sex og svo er forsetinn fyrir utan.

Reyndar er það svo, það er áhugavert, að þegar ég horfi til þess hversu oft var rætt við hv. þm. Össur Skarphéðinsson er það jafn oft og við þá 30 einstaklinga neðstu ef ég legg saman fjölda skiptanna, (Forseti hringir.) það jafnast því. Og ég er viss um að hv. þingmaður hefur örugglega komið mjög skýrt og skilmerkilega fram með allar sínar skoðanir á málinu og þar með aukið jafnvægi í umræðu.