143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af málum tengdum Evrópusambandinu.

419. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég verð að játa það alveg fúslega að mér var það nokkur lífsreynsla að hlusta á nýjan og sprækan ráðherra tala eins og hann væri með munninn troðinn af ull. Það var varla nokkur möguleiki á að skilja hvað hæstv. menntamálaráðherra var að fara með sinni löngu skógarferð í svari sem er í eðli sínu annaðhvort já eða nei. En það kom niður í einn áfangastað og hann er þessi:

Hæstv. menntamálaráðherra stendur ekki með sinni stofnun, Ríkisútvarpinu. Hún hefur legið undir stanslausu ámæli síðustu mánuði, að minnsta kosti af hálfu Framsóknarflokksins og að hluta Sjálfstæðisflokksins, um að vera ekki hlutlaus í umfjöllun sinni um þetta stóra mál. Ríkisútvarpið bregst við með því að láta gera könnun á því. Það er stofnun úti í bæ sem gerir hana og hún kemst algjörlega að skýlausri niðurstöðu. Þessi niðurstaða er eftirfarandi:

Af þeim sem rætt er við um Evrópusambandið í ríkismiðlinum eru helmingi fleiri sem eru því andstæðir en meðstæðir.

Hvaða ályktun má draga af því? Að það sé tómur þvættingur og vitleysa sem hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa haldið fram, að Ríkisútvarpið taki einhverja afstöðu með Evrópusambandinu. Hæstv. menntamálaráðherra á að vera nógu stór til þess að horfast í augu við staðreyndir. Það verður enginn að alvörustjórnmálamanni nema að gera það og komast að þeirri niðurstöðu að hugsanlega hafi hann eða þeir sem hann er í liði með haft rangt fyrir sér.

Ég geri svo enga sérstaka kröfu til þess að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að ég sem talsmaður Samfylkingarinnar í utanríkismálum komi oftar í viðtöl. Hins vegar er það sláandi að af þeim fimm sem oftast er talað við (Forseti hringir.) er bara einn sem er á bandi Evrópusambandsins.