143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál Listaháskóla Íslands.

421. mál
[17:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hefja máls á þessu máli. Eins og fyrirspyrjanda, hv. þingmanni, er kunnugt var í tíð síðustu ríkisstjórnar, nánar tiltekið þann 10. maí 2013, skipaður starfshópur sá sem nefndur var hér til að bera saman kosti þess að byggja yfir skólann annars vegar á svokölluðum Sölvhólsgötureit og hins vegar á þeim stað þar sem hann er núna, í Laugarnesinu. Þeirri vinnu er ekki lokið. Forsendur þess að hægt sé að ljúka þeirri vinnu eins og stefnt var að hafa því miður ekki reynst vera til staðar. Í fyrsta lagi fylgdu engir fjármunir með vinnu hópsins en nú liggur fyrir að nákvæm kostnaðarúttekt mun kosta allt að 4 millj. kr. Það þarf að leysa þann þátt málsins.

Síðan liggur ekki neitt fyrir um að Stjórnarráðið gefi frá sér Sölvhólsgötureitinn. Það þarf því að skýra betur forsendur fyrir verkinu áður en haldið er áfram með það.

Mér er hins vegar ljóst að húsnæðismál skólans eru í ólestri og ég hef fullan hug á og vilja til þess að vinna að lausn þess máls með skólanum. Helst ætti slíkur skóli að vera þar sem hann getur auðgað mannlífið og sjálfur dafnað. Ég get tekið undir með hv. fyrirspyrjanda að það væri ágætt því nær sem hann væri miðborginni. Þá skiptir líka máli hvar og hvernig það rúmast inni í skipulagi borgarinnar.

Til ítrekunar liggja niðurstöður hópsins ekki fyrir en honum var einmitt falið að gera ítarlega kostnaðaráætlun fyrir Listaháskólann. Starfshópnum var falið að fjalla um málið á grundvelli mismunandi staðsetningar og skoða þrjá möguleika þar að lútandi. Í fyrsta lagi kom til greina að gera breytingar á núverandi húsnæði skólans á Laugarnesvegi 91 og byggja við húsnæðið, í öðru lagi að gera breytingar á núverandi húsnæði skólans á Sölvhólsgötu 13 og byggja við húsnæðið og í þriðja lagi að byggja nýtt húsnæði við skólann á Sölvhólsgötureitnum. Það er dýrt að gera þessa kostnaðaráætlun og eins hefur ekki verið fallið frá þessum áformum. Eins og ég lýsti áðan hvað varðar Stjórnarráðið skýrir þetta tvennt þá töf sem orðið hefur á starfi hópsins.

Við munum innan ráðuneytisins sjá hvað við getum gert til að starfshópurinn geti klárað og komið með niðurstöðu sem getur þá hjálpað okkur við að leggja mat á þetta. Þessar þrjár leiðir eru sem sagt uppi, þessir reitir, en ég get líka tekið undir með hv. þingmanni að það er kannski ekki raunhæft að ætla að það verði einhverjar stórstígar framfarir alveg á næstunni vegna stöðu ríkissjóðs. Það skiptir samt máli að við sjáum til lands í þessari vinnu til að hægt sé að undirbyggja stefnumótun hvað þetta varðar með góðum hætti.