143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

vetrarþjónusta Vegagerðarinnar.

367. mál
[18:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. 26. febrúar sl. birtist frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar sem var um að snjómokstursdögum á Möðrudalsöræfum væri fækkað í bili, með leyfi forseta:

„Vegna mikils fannfergis á fjallvegum á Austurlandi er nauðsynlegt að fækka snjómokstursdögum á Fjöllum á leiðinni frá Námaskarði austan Mývatns að Skjöldólfsstöðum sem og Vopnafjarðarheiði. Breyting þessi tekur gildi frá og með föstudegi 28. febrúar“, þ.e. tveimur dögum síðar.

Eins og við vitum hefur verið mikill snjór á Fjöllum og sagt er:

„Við hvern mokstur hleðst upp snjór við hlið vegar, göngin dýpka og því verður erfiðara að opna aftur við næsta mokstur og þess vegna nauðsynlegt að fækka mokstursdögum tímabundið til að gera það mögulegt að halda leiðinni opinni eins og hægt er við þessar aðstæður.“

Enn fremur er getið um það í tilkynningunni að svipað ástand sé á Fjarðarheiði og í Oddsskarði og að þar gæti einnig komið til einhverra takmarkana.

Þetta var tilefni þess að ég lagði fram fyrirspurn þessa til munnlegs svars þótt hún komi þetta seint eða einum mánuði seinna: Eru uppi áform um frekari niðurskurð á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar?

Það var vegna þess að aðilar á þessu svæði voru mjög ósáttir við það sem væri í vændum ef gera þyrfti meira af því að minnka snjómokstur.

Nú er það svo að í nútímasamfélagi er til dæmis fiskútflutningur mjög mikilvægur og er meðal annars keyrt frá Norðurlandi og austur til Reyðarfjarðar seinni partinn hvern einasta fimmtudag og um nóttina til að koma fiski í skip sem fer frá Reyðarfirði á föstudögum. Ástæðan fyrir fyrirspurn minni var líka sú að fiskútflytjendur höfðu miklar athugasemdir við það hvernig ætti að standa að þessum snjómokstri og að ekki hefði verið haft samráð við þá heldur fyrst og fremst samráð við þá sem þurfa að flytja mjólk. Það er sjálfsagt, en líka full ástæða til þess að hafa samráð við fiskútflytjendur.

Eins og ég sagði brá mönnum mjög, var það virkilega að fara á þann veg að Fjarðarheiði, Oddsskarð, Fjöllin, Vopnafjarðarheiði o.fl. yrði lítið mokað? Það var ástæðan fyrir því að ég lagði fyrirspurnina fram. Ég vil geta þess að hún komst ekki að í óundirbúnum fyrirspurnum þegar ég hugðist leggja hana fram, en hún er hér nú og þótt það sé einum mánuði síðar (Forseti hringir.) fýsir mig að hlusta á og hlakka til að heyra svar hæstv. innanríkisráðherra við þessari einföldu spurningu.