143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

vetrarþjónusta Vegagerðarinnar.

367. mál
[18:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina og fyrir að fá tækifæri til að ræða þessi mál á þingi. Líkt og hv. þingmaður og fyrrverandi ráðherra samgöngumála þekkir byggir vetrarþjónusta Vegagerðarinnar á útgefnum og samþykktum snjómokstursreglum, eins og það er kallað. Í þeim kemur fram umfang þjónustunnar á hinum ýmsu köflum vegakerfisins, svo sem fjöldi snjómokstursdaga á viku og flokkur hálkuvarna. Hv. þingmaður þekkir það líkt og ég að það hefur auðvitað komið upp og verið eilítið erfitt að undanfarin ár hafa snjóþyngsl verið umtalsverð og meiri en oft áður og það hefur krafist mikillar hagræðingar og mikillar vinnu af hálfu Vegagerðarinnar að halda vel utan um það.

Svo spurningunni sé svarað beint eru engin áform uppi um frekari niðurskurð á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar. Þvert á móti eru það markmið mín sem ráðherra ríkisstjórnarinnar og Vegagerðarinnar, og ég veit að um það verður ekki ágreiningur á þingi, að auka vetrarþjónustuna enn frekar. Árlegur kostnaður vegna vetrarþjónustu Vegagerðarinnar er nú um 2,5 milljarðar kr. Á næsta ári er áætlað að bæta við um 500 millj. kr. þannig að um 3 milljörðum kr. verði varið í vetrarþjónustu. Þetta kemur fram í samgönguáætlun sem lögð hefur verið fram á þinginu.

Ég vil segja í því samhengi að mikið hefur verið rætt að mikill niðurskurður hafi verið í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar. Það er, líkt og fulltrúar fyrrverandi ríkisstjórnar þekkja, ekki alveg rétt vegna þess að reynt hefur verið að tryggja að þeim lið í verkefnum Vegagerðarinnar hafi verið haldið úti í samræmi við hversu mikil snjóþyngsl hafa verið víða á landinu. Eins og gefur að skilja getur komið til undantekninga á þjónustu og viðbrögðum við ástandi vegna sérstakra aðstæðna, en það er mat sérfræðinga Vegagerðarinnar að enn alvarlegra ástand geti skapast á ákveðnum leiðum ef ekki er brugðist við. Það hefur stundum skapað þá stöðu að þurft hefur að forgangsraða á annan hátt en við hefðum kannski kosið í áætlunum okkar.

Ég treysti faglegu mati Vegagerðarinnar til að meta aðstæður hvað þetta varðar hverju sinni og til að tryggja þá þjónustu sem þegar hefur verið ákveðin, en umfram allt til að tryggja öryggi í umferðinni í öllum mögulegum aðstæðum allan ársins hring.

Ég ítreka fyrri orð mín um að það stendur til að auka við vetrarþjónustu Vegagerðarinnar á næstu árum. Ég vona innilega að Alþingi taki undir það með mér þannig að okkur takist að vinna það í gegnum þá samgönguáætlun sem fyrir liggur. Það er mikilvægt, eins og hv. fyrirspyrjandi þekkir, að við reynum eftir fremsta megni að halda helstu leiðum landsins opnum og greiðfærum eftir því sem aðstæður leyfa. Það er auðvitað hryggilegt þegar það gerist á þeim leiðum sem hv. þingmaður nefndi að ekki tekst sérstaklega vel til í takmarkaðan tíma en það eru oft ákveðnar ástæður og forsendur fyrir því. Heilt yfir held ég að okkur takist þetta ágætlega þótt ástæða sé til að nefna það hér að kannski eigum við að ræða fyrir utan snjómoksturinn og vertrarþjónustuna að það er staðreynd, því miður, að viðhald á vegum okkar hefur mátt láta dálítið undan að undanförnu og við þurfum líka að reyna að efla og tryggja að þeir innviðir séu í lagi.