143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

vetrarþjónusta Vegagerðarinnar.

367. mál
[18:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp. Hv. þingmaður gerði ágætlega grein fyrir því hver var ástæðan fyrir fyrirspurn hans á sínum tíma. Ég held að mjög mikilvægt sé að við höfum hugfast að snjómokstursmál eru farin að skipta miklu meira máli en þau gerðu fyrir einhverjum árum eða áratugum síðan. Við, ríkisvaldið, sveitarfélög, atvinnulífið, höfum í miklum mæli verið að ýta undir aukna hagræðingu sem hefur falið í sér samþjöppun á ákveðnum svæðum sem kallar á auknar samgöngur. Þetta hefur verið gert á sviði heilbrigðisþjónustu, löggæslu, á mörgum sviðum og í því sambandi eru samgöngur algert lykilatriði í að tengja saman svæði. Ég fagna því þess vegna að áætlað er að auka fjárveitingar til snjómoksturs. Vonandi leiðir það til endurskoðunar á snjómokstursreglum vegna þess, og ég ítreka það, að það er gríðarlega mikilvægt í hinum dreifðu byggðum þar sem er oft um langan veg að fara og langt að sækja atvinnu (Forseti hringir.) og ýmiss konar opinbera þjónustu.