143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

aðgengi fatlaðs fólks að kirkjum og safnaðarheimilum.

379. mál
[18:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál hér upp. Ég ætla eins og spurningarnar voru bornar fram að gera mitt besta til að svara þeim. Ég vil í upphafi taka fram að ég tel að það sem hér er nefnt sé mjög mikilvægt, og mikilvægt að huga að því og tryggja það sem hv. fyrirspyrjandi nefndi um að auðvitað viljum við og það er sjálfsagt og eðlilegt að tryggja gott aðgengi fólks að þessari starfsemi eins og annarri.

Spurt var hvort gerð hefði verið úttekt á aðgengi fatlaðs fólks að kirkjum og safnaðarheimilum á landinu. Um það er að segja að haustið 1990 var gerð úttekt á aðgengi að kirkjum Reykjavíkurprófastsdæma. Úttektina önnuðust prestur fatlaðra fyrir hönd þjóðkirkjunnar og þáverandi ferlimálafulltrúi Öryrkjabandalags Íslands. Úttektin sýndi — það er auðvitað langt síðan þessi úttekt var gerð — að verulegra úrbóta væri þörf og var gengið í það strax á haustmánuðum 1990 að fylgja því eftir að bætt væri úr þessu aðgengi á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim kirkjum sem reistar hafa verið á þessu svæði á undanförnum árum hefur þess verið gætt að kröfum um aðgengi fatlaðra sé mætt eins og í öðrum opinberum byggingum. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið aflaði frá presti fatlaðra sem starfar á vegum þjóðkirkjunnar bjóða flestar kirkjur á höfuðborgarsvæðinu nú upp á ágætisaðgengi fyrir fatlaða þótt vissulega megi gera betur. Sérstaklega var nefnt í þeim upplýsingum sem við fengum að í mjög fáum kirkjum hafi kirkjubekkir verið teknir út til að fólk sem notar hjólastóla geti setið og haft aðgengi að kirkjunni. Það var nefnt sérstaklega.

Hins vegar kom einnig fram í þeirri skoðun sem ráðuneytið gerði vegna þessarar fyrirspurnar að ekki hefur verið gerð sérstök könnun á aðgengi í kirkjum landsbyggðarinnar. Í höfuðstöðvum landsins og stærri plássum er aðgengi víða gott þótt þar mætti líka bæta úr eins og ég nefndi áðan. Hins vegar eru þó nokkrar kirkjur landsins gamlar sveitakirkjur og þar er talið afar erfitt að breyta aðgengi.

Ég vil upplýsa líkt og hv. fyrirspyrjandi kom inn á að á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 sem Alþingi samþykkti í formi þingsályktunartillögu 11. júní 2012 tók Samband íslenskra sveitarfélaga að sér að afla gagna um stöðu húsnæðismála hjá sveitarfélögum, þar á meðal um aðgengi að opinberum byggingum. Í nóvember 2013 voru lagðar spurningar fyrir þau 15 þjónustusvæði fatlaðs fólks sem landið skiptist í. Spurt var hvort gerð hefði verið úttekt innan þeirra hvað varðar meðal annars aðgengi að opinberum byggingum. Samkvæmt upplýsingum sem innanríkisráðuneytið hefur nýlega fengið er þessi vinna komin af stað í tíu af þessum 15 þjónustusvæðum en í hinum fimm er annaðhvort úttekt í vinnslu eða ekki enn hafin.

Í seinni spurningunni spurði hv. þingmaður hvort vænta mætti slíkrar úttektar ef hún hefði ekki farið fram. Þá vísa ég til þess sem ég hef þegar svarað og þeirrar vinnu sem nú er í gangi hjá sveitarfélögunum og minni líka á að þjóðkirkjan hefur markað sér stefnu í málefnum fatlaðra þar sem segir skýrt að unnið verði að því „að fatlaðir njóti aðgengis að kirkjum, helgiathöfnum og kirkjustarfi og geti tekið virkan þátt“ í því. Þar eru taldir upp þrír þættir sem skipti sérstaklega miklu máli sem eru að aðgengi hreyfihamlaðra að kirkjum og safnaðarheimilum sé tryggt og nauðsynleg aðstaða fyrir hendi, að tækjabúnaður og hjálpargögn séu til staðar og aðgengileg og að túlkaþjónusta sé í boði.

Þá vil ég einnig taka fram og upplýsa þingheim um að biskup Íslands hvatti nýlega til þess í bréfi til allra sóknarpresta og sóknarnefndarformanna landsins að skoða gaumgæfilega hvernig aðgengi fatlaðra er háttað í kirkjum, safnaðarheimilum og öðrum þeim húsakynnum sem þeir hafa umsjón með. Mun prestur fatlaðra meðal annars leiðbeina við þá skoðun og úttekt á hverjum stað. Í sama bréfi hvatti biskup til þess að leitað yrði aðstoðar á þessu sviði til fleiri fagaðila um málefni fatlaðra svo gera mætti aðgengi að kirkjum og safnaðarheimilum sem best. Ef í ljós kemur að gera þurfi breytingar eða bragarbót á aðgengi hvatti biskup til að leitað yrði allra leiða til að hrinda þeim í framkvæmd sem allra fyrst.

Það er margt í gangi hvað þetta varðar en augljóst að betur má ef duga skal. Ég treysti því að unnið verði að því sem sveitarfélögin eru að gera núna, því sem prestur fatlaðra hefur forgangsraðað í þágu fatlaðra og því sem biskup hefur hvatt til. Ég tek undir það, eins og ég sagði áðan, að ég tel mikilvægt að þessi mál séu skoðuð vel og vandlega. Ég treysti því að kirkjan meti á hvern hátt hægt sé að fylgja eftir þessari stefnumótun og ég mun fylgjast með þessari vinnu frá þjóðkirkjunni og afla mögulegra upplýsinga um niðurstöðu þeirrar vinnu.