143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

aðgengi fatlaðs fólks að kirkjum og safnaðarheimilum.

379. mál
[18:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð að segja að sú úttekt sem var gerð haustið 1990 á þessum málum á höfuðborgarsvæðinu kallar á það, og vil taka undir með hv. þingmanni og fyrirspyrjanda, að það verði gerð ný úttekt og ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur landinu öllu. Allir eiga að geta sótt kirkju þótt þeir glími við fötlun. Ég hvet hv. þingmann til að taka þetta mál áfram upp og ráðherrann vegna þess að þetta er nokkuð sem ráðherra þessa málaflokks á að hafa forgöngu um að koma í lag og koma af stað einhverri áætlun um hvernig þetta verði lagfært.

Ég verð að segja að mér fannst sláandi þær upplýsingar sem komu fram hjá hv. þingmanni, að þess séu dæmi að fötluð börn hafi ekki fermst vegna þess að aðgengi sé ábótavant í kirkjum landsins. Ég vil segja aftur í lokin að það er gríðarlega (Forseti hringir.) mikilvægt að þessu sé fylgt eftir. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu á Alþingi.