143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

aðgengi fatlaðs fólks að kirkjum og safnaðarheimilum.

379. mál
[18:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Aðgengi er víðfeðmara hugtak en svo að það snúist einvörðungu um það að komast inn eða út úr byggingum. Aðgengi snýst um að geta tekið þátt í samfélaginu. Aðgengi er raunar forsenda þátttöku. Til þess er nauðsynlegt að líta þegar úttektir eru gerðar á aðgengi, ekki bara hvort fólk komist inn í byggingu heldur ekki síður hvort fólk geti tekið þátt í þeirri félagslegu athöfn sem í byggingunni fer fram því að í þátttökunni felst hið raunverulega aðgengi.