143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

aðgengi fatlaðs fólks að kirkjum og safnaðarheimilum.

379. mál
[18:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að við þurfum ekkert að takast á um það, ég held að um þetta sé góð sátt og allir sammála um það, alveg sama hvar í flokki þeir eru og alveg sama hvar þeir standa yfirleitt í samfélaginu. Líkt og nefnt var áðan er aðgengi forsenda þátttöku og aðgengi á að vera til staðar fyrir alla í kirkjum landsins og öllum opinberum byggingum. Ég held að það sé enginn ágreiningur um það.

Hins vegar er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmönnum hér að það hefur tekið lengri tíma en við hefðum viljað sjá það taka. Við hefðum viljað að þetta hefði gerst fyrr. En til að afsaka aðeins kirkjuna líka eða útskýra það, af því að hér var sagt að þetta ætti ekki að vera mjög flókið og það þyrfti að fara að eyrnamerkja fjármagn í það, að á undanförnum árum hefur kirkjan mátt þola umtalsvert meiri skerðingu á fjárframlögum, þ.e. sóknargjöldum sem kirkjan telur eiga að vera lögbundið framlag til hennar starfsemi, en öll önnur starfsemi á vettvangi innanríkisráðuneytisins. Það er ansi erfitt að gera meiri kröfur til kirkjunnar en við höfum gert á þeim tímum sem kirkjan hefur upplifað undanfarið. Við skulum halda því til haga.

Ég er sammála þeim sem hér hafa talað um að þetta sé mikilvægt. Ég er líka sammála um að það þurfi að forgangsraða í þágu þess. Á sama tíma verðum við þá að útdeila fjármagninu þannig að kirkjan geti ráðið við það verkefni. Það er forsenda þess að við því verði orðið. Hún hefur reynt að halda uppi hefðbundnu kirkjustarfi og það þekkja allir. Fyrrverandi forsætisráðherra var meðal annars búinn að viðurkenna það í bréfi til kirkjunnar að það hefði verið of hart gengið gagnvart kirkjunni og að niðurskurður til starfsemi hennar hefði verið meiri en hefði verið sanngjarnt og eðlilegt. Á þeim tímum er ekki hægt að ætlast til þess að kirkjan fari í miklar framkvæmdir.

En ég er alveg sammála öllum sem hér hafa tekið til máls um að þetta er forgangsverkefni. Við skulum halda því vakandi og lifandi og ég skal eins og ég sagði áðan fylgjast fast með því en ég bið menn um að sýna örlítinn skilning á tímum þar sem fjármagn hefur verið lítið.

Ég vona að kirkjunni auðnist að forgangsraða kröftuglega í þágu þessa á næstu missirum.