143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

Dettifossvegur.

396. mál
[18:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Enn einu sinni neyðist ég til að spyrja út í framkvæmdir við Dettifossveg. Ég spurði síðast hæstv. innanríkisráðherra 11. nóvember síðastliðinn vegna þess að þá var ekki farið að bjóða út og þess vegna fýsti mig að vita hverju það sætti að ekki var boðið út þar sem búið var að fjalla um undirbúning og þann tíma á árinu. Þá sagði hæstv. ráðherra m.a., með leyfi forseta:

„Þess vegna var ákvörðun tekin í lok júní“ — þ.e. á síðasta ári — „um að fresta útboði þar til í vetur“ — þ.e. nú í vetur — „með það í huga að hægt yrði að hefja framkvæmdir næsta vor.“ — Þ.e. núna í vor.

Það bólar ekkert á útboðinu þó að fjármunir séu til í samgönguáætlun en 600 milljónir voru í verkið árið 2013 og aðrar 600 milljónir árið 2014 og síðustu 600 milljónirnar áttu að koma árið 2015. Þá átti framkvæmdum að ljúka við seinni hluta Dettifossvegar, sem er í kringum 30 kílómetra leið.

Fyrri hlutinn af Dettifossvegi var unninn á einum mesta erfiðleikatíma Íslandssögunnar hvað ríkisfjármál og annað slíkt varðar og voru veittir peningar til að gera þá miklu og góðu framkvæmd sem heldur betur hefur skilað sér, en seinni hlutinn er eftir og um það er verið að ræða hér. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst með öllu óásættanlegur sá mikli dráttur sem hefur verið á því að bjóða verkið út. Það er tilefni þess að ég spyr hæstv. ráðherra út í þetta núna.

Forgangsröðun miðað við samgönguáætlun hefur ekki verið breytt. Sú áætlun sem samþykkt var 19. júní 2012 er í gildi og eftir henni hefur verið unnið. Hvers vegna er ekki boðið út? Er það vegna þess — og það er ein spurning mín til hæstv. ráðherra — að á síðasta ári voru teknir peningar af Dettifossvegarframkvæmdinni í viðhald malarvegar sem átti svo að skila til baka núna en kemur ekki í þeirri samgönguáætlun sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi? Sem mér sýnist vera frekar rýr í roðinu miðað við fyrstu yfirsýn hvað varðar verklegar framkvæmdir. Spurningar mínar eru einfaldlega:

Hvers vegna er ekki búið að bjóða út framkvæmdir við seinni hluta Dettifossvegar?

Hvenær er fyrirhugað að bjóða verkið út?