143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

Dettifossvegur.

396. mál
[18:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hér hljóðs er sú að ég vil leggja mikla áherslu á að þetta verk verði sett á forgangslistann hjá hæstv. ráðherra. Mér heyrist það vera þar. Þetta snertir auðvitað líka uppbygginguna í ferðaþjónustunni og þá stefnumörkun sem þar hefur verið hvað varðar heilsársferðaþjónustu sem víðast um landið. Þar er Dettifossvegur auðvitað alger lykilframkvæmd í því að gera Norðurland að perlunni sem við viljum að það sé. Þar með fjölgum við þeim mikilvægu seglum sem við höfum til þess að byggja upp heilsársferðaþjónustu sem víðast um landið.

Ég vil leggja á þetta þunga áherslu og (Forseti hringir.) þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að taka þetta mál hér upp. Eins og hæstv. ráðherra heyrir er mörgum þingmönnum hvaðanæva að af landinu mjög annt um þessa framkvæmd.