143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

Dettifossvegur.

396. mál
[18:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svarið þó að ég hafi oft verið ánægðari með svör hæstv. ráðherra, eins og 11. nóvember í fyrra þegar mér fannst svarið vera mjög flott, glæsilegt, þess efnis að verkið yrði boðið út.

Nú er sem sagt komið í ljós að það á að teygja þetta verk yfir á lok árs 2017, sem er algerlega óásættanlegt eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon orðaði, og bjóða út 3,5 kílómetra næst norðausturvegi sem er smákafli af þessari 30 kílómetra leið.

Ég ítreka það sem ég sagði og hér hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hvað varðar ferðaþjónustuna, að þegar við settum fyrri hlutann í gang var skrifað að þetta ætti að gerast í beinu framhaldi. Því miður varð ekki hægt að bjóða verkið út í einum áfanga, eins og ég hafði áhuga á þá sem samgönguráðherra en ekki láta það taka lengri tíma. Það tókst því miður ekki, en síðan hafa þessar tafir orðið.

Ég segi alveg eins og er, virðulegi forseti, það er rétt sem hér hefur komið fram að það eru ekki nægjanlegir peningar veittir núna árið 2014, skánar aðeins á næsta ári en engan veginn nægjanlega. Ef tekið er mið af nýframlagðri samgönguáætlun taka Norðfjarðargöng og framkvæmdir við Bakka, sem ákveðið var á síðasta kjörtímabili, næstum því helminginn af þeim 8 milljörðum í heild sem varið verður til stofnkostnaðarframkvæmda á næsta ári.

Virðulegi forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra og vil spyrja hér í lokin hvort ekki geti komið til greina að breyta þessu og bjóða verkið allt út í heild sinni þó að það taki tvö, þrjú ár eins og hér er sett inn. Það væru klár skilaboð. Verkið er komið í útboð, það er búið að skrifa undir verksamning og ef eitthvað gerist í samgönguáætlun á næstu árum (Forseti hringir.) verður ekki hægt að skera þar niður. Þetta er dæmi sem hefur skilað sér mjög vel undanfarin ár.