143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:55]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú hálfleiðinlegur þessi gauragangur sem er byrjaður hérna þar sem maður er búinn að bíða í allan dag eftir að fá að ræða við stjórnarandstöðuna um leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar og félagsvísa. Ég veit ekki betur en að stjórnarliðar hafi einmitt beðið um að fá að mæla fyrir málinu fyrir helgi en stjórnarandstaðan gat ekki séð ástæðu til þess að verða við þeirri beiðni.

Við höfum síðan eytt deginum í að ræða um einhvern fjölda fyrirspurna sem stjórnarandstöðunni þótti mjög mikilvægt að koma á dagskrá núna á mánudegi. Nú hefur komið fram að framsögumaður málsins getur ekki mælt fyrir málinu á morgun. Ég held að það sé rétt og alveg í anda þess ef við viljum bæta vinnubrögðin hérna að við öndum aðeins rólega og reynum að tala saman og ekki endilega bara hér í ræðustól.