143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það var nú lágmark í síðustu viku að stjórnarandstaðan fengi meira en rétt tæpan sólarhring til þess að fara yfir þessi stóru mál áður en fyrir þeim yrði mælt hér, þess vegna dróst það fram yfir helgi. En ég er mjög undrandi á þessum fréttum, ég er bara að heyra af því núna í umræðum um fundarstjórn forseta að menn treysti sér ekki til þess að standa með málum sínum 1. apríl. Snýst þetta um dagsetninguna?

Þetta hlýtur bara að vera grín, virðulegi forseti. Ef svo er þá getur ekki verið að hér geti yfir höfuð verið nokkur dagskrá 1. apríl. (Gripið fram í: Nei, nei, …) Það er bara þannig. (Gripið fram í.) Þetta eru stærstu mál þessarar ríkisstjórnar, þau sem stjórnarliðar hafa barið sér á brjóst út af og kallað heimsmetið mikla og talað um sögulega framlagningu á þessum risastóru málum. Ef menn geta ekki mælt fyrir þeim 1. apríl þá trúi ég ekki að menn geti mælt fyrir einu einasta máli. Þá geri ég ráð fyrir því að hæstv. forseti muni tilkynna það hér á eftir að á meðan þessi ríkisstjórn situr verði aldrei þingfundur 1. apríl því að menn treysti sér ekki til að tala fyrir málum sínum á þeim degi. Það þykir mér afar undarlegt og það er líklega algjörlega nýtt í (Forseti hringir.) sögu þingsins.