143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[19:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að vita hvort það séu einhverjar efnislegar ástæður fyrir því að það þurfi að fresta þessu. Við höfum spurt en engin hafa svörin verið, sem er nú reyndar gegnumgangandi mynstur hér á hinu háa Alþingi. Er hæstv. forsætisráðherra veikur? Ef svo er þá er það skiljanlegt, ekkert mál. Þá mun hæstv. fjármálaráðherra flytja málið. (Gripið fram í.) Er hann með mikilvægari verkefni? Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra mundi stíga hér í pontu og viðurkenna slíkt eða taka slíkt í mál ef út í það er farið.

Mér finnst eins og hæstv. forsætisráðherra hunsi ranga mótlætið. Það skiptir engu máli þótt málið sé flutt 1. apríl. Það skiptir hins vegar máli að það sé flutt fyrr en seinna. Hæstv. ráðherra ætti að taka þessa gagnrýni nærri sér og hunsa eitthvert smávægilegt grín vegna 1. apríl. Það skiptir engu máli og hefur greinilega aldrei skipt neinu máli hér á hinu háa Alþingi.

Mig langar að spyrja, vegna þess að ég er nú enn þá tiltölulega nýr þingmaður: Þarf ekki samkvæmt þingsköpum að gefa upp einhverja ástæðu fyrir þessu?