143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[19:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrsta apríl-frumvörpin, eins og skuldafrumvörp ríkisstjórnarinnar hljóta að heita eftir þessa ótrúlegu uppákomu, eru þannig úr garði gerð að eðlilegt er að hæstv. forsætisráðherra vilji ekki að mælt sé fyrir þeim 1. apríl. En það er ótrúlegt að forseti Alþingis láti bjóða sér upp á það að dagskrá Alþingis 1. apríl 2014, sem kynnt var á fundi þingflokksformanna 31. mars, þ.e. í morgun, og síðan kynnt fyrir öllum þingflokkum á Alþingi á þingflokksfundum eftir hádegi, hafi reynst vera aprílgabb, því að það er náttúrlega nákvæmlega það sem er að gerast hér. Dagskráin stenst ekki og ráðstafanir sem þingmenn hafa gert til þess að undirbúa mál og annað þess háttar standast ekki. Það verður að gera mjög alvarlegar athugasemdir við að svona sé staðið að málum, sérstaklega vegna þess að hér er um að ræða stór og brýn hagsmunamál sem ég hefði ekki haldið að mundi (Forseti hringir.) vefjast fyrir ríkisstjórninni að vilja ræða. Það er augljóst að menn (Forseti hringir.) treysta sér bara ekki til þess að taka umræðuna eins og sakir standa.