143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

leiðbeiningarskylda Tryggingastofnunar.

401. mál
[19:16]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrirspurn hennar um leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar. Hv. þingmaður spyr hvort hún sé viðunandi eða hvort ráðherra telji að styrkja þurfi stofnunina svo að hún geti risið undir lögbundnum skyldum sínum.

Það er afstaða mín að eftir áralangan niðurskurð hjá held ég flestum stofnunum ríkisins sé svo sannarlega nauðsyn að styrkja starfsemi þeirra allra. Það er rík leiðbeiningarskylda í almannatryggingalögunum, eins og hv. þingmaður fór í gegnum, til viðbótar við það sem almennt gildir um leiðbeiningarreglur stjórnvalda í stjórnsýslulögum. Þær skyldur fela meðal annars í sér að starfsmenn stofnunar eiga að kynna sér vel aðstæður umsækjenda og þeirra sem njóta lífeyrisgreiðslna hjá stofnuninni enda er staða þeirra oft viðkvæm vegna veikinda og erfiðrar félagslegrar stöðu. Starfsmönnum ber líka að leiðbeina þeim sem til stofnunarinnar leita um rétt þeirra og ávallt skal við meðferð máls skoða stöðu og réttindi umsækjenda heildstætt.

Leiðbeiningarskyldan nær til fleiri laga en þeirra sem hún starfar eftir, almannatryggingalaganna, en verið er að hnykkja á því með lögunum sem samþykkt voru á Alþingi í lok janúar sl. Þar má nefna barnalög, lög um málefni aldraðra og lög um félagslega aðstoð. Einnig var sú breyting gerð að stofnuninni er nú skylt að skoða stöðu og réttindi umsækjenda eða greiðsluþega heildstætt. Ég tel það afar mikilvægt til að koma í veg fyrir að umsækjendur fari á mis við réttindi sem þeir gætu átt tilkall til, t.d. greiðslur úr lífeyrissjóðum. Það kom einmitt inn sérstakt ákvæði hvað það varðar að umsækjendur um lífeyri hjá Tryggingastofnun ættu líka að kanna og sækja réttindi sín hjá lífeyrissjóðum.

Starfsmenn Tryggingastofnunar hafa reynt að leggja áherslu á að sinna leiðbeiningarskyldu sinni eins vel og hægt er og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér virðist hún gera það á viðunandi hátt. Það er hins vegar afar brýnt að stofnunin hafi hæft starfsfólk sem er fært um að leiðbeina og aðstoða fólk varðandi réttindi sín. Lagaumhverfið er mjög flókið, hvort sem maður fæst við veikindi eða starfar á þingi þarf að reyna að skilja hið flókna lagaumhverfi. Það þarf mjög oft að skoða fleiri en ein lög, svo sem almannatryggingar, réttindi lífeyrissjóðanna um félagslega aðstoð og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga o.fl. Það kunna að koma upp mistök og við fáum oft að heyra af þeim, jafnvel í fjölmiðlum, en það má hins vegar minna á að stofnunin hefur í kringum 70 þús. viðskiptavini.

Þeir hafa lagt áherslu á það hjá Tryggingastofnun að reyna að bæta aðgengi almennings að þjónustu stofnunarinnar, sérstaklega rafrænt, leggja meiri áherslu á upplýsingar og jafnvel með eigin síðu þar sem viðskiptavinir stofnunarinnar hafa aðgang að gögnum. Það held ég að hafi mælst mjög vel fyrir hjá (Forseti hringir.) viðskiptavinum þeirra. Hins vegar er alveg ljóst, eins og ég sagði áðan, að alltaf er hægt að gera betur hjá Tryggingastofnun rétt eins og hjá öðrum opinberum stofnunum.