143. löggjafarþing — 85. fundur,  31. mars 2014.

fjármálastöðugleikaráð.

426. mál
[20:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Það er að sjálfsögðu þannig, eins og með svo mörg mál, að heilmikinn fróðleik er að finna í greinargerðinni með málinu sem svarar ýmsum spurningum. Málið gæti réttlætt langar umræður og nefndin mun án vafa fá töluvert efni til að vinna með.

Mig langar til að nefna í tilefni af umræðunni örfá atriði sem fram hafa komið og ástæða er til að bregðast við. Í fyrsta lagi vil ég nefna að 5. gr. frumvarpsins byggir á því að fjármálastöðugleikaráðið beini tilmælum til þeirra aðila sem geta brugðist við með aðgerðum til að mæta þeim aðstæðum sem ráðið er sérstaklega ætlað að hafa eftirlit með. Það geta verið fyrst og fremst þar til bær stjórnvöld eins og segir í 5. gr.

Í því samhengi er rétt að geta þess að sú skoðun kom upp í þeirri nefndarvinnu sem átt hefur sér stað að það kæmi líka til álita að fjármálastöðugleikaráðið gæti hreinlega haft ákvörðunarvald um hluti sem ætti að framkvæma, þ.e. þegar upp væri komin sú staða að fjármálakreppa væri annaðhvort yfirvofandi eða þegar skollin á gæti verið nauðsynlegt að ráðið hefði beinlínis ákvörðunarvald um aðgerðir sem skyldi gripið til. En í frumvarpinu er farin sú leið að fela ráðinu ekki beint ákvörðunarvald heldur að ráðið, eftir að hafa náð heildaryfirsýn yfir stöðuna, beini tilmælum. Það kann að vera ýmislegt sem er ekki nema að hluta til fyrirsjáanlegt sem gefur tilefni til þess að vera með slík tilmæli.

Við getum séð fyrir okkur, eins og rakið er í athugasemdum um 5. gr., að vera kunni að lánveitingar til einstakra stórra aðila þyki hafa gengið úr hófi fram eða ef þróun hlutabréfaverðs gæfi tilefni til að taka það til sérstakrar skoðunar, eða einsleitni lánveitinga væri of mikil í slíkum tilvikum, eins og rakið er í athugasemdunum, gæti ráðið beint þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að það fylgdist sérstaklega með slíkri þróun eða gripi jafnvel til aðgerða.

Hér erum við komin að ákveðnu lykilatriði í frumvarpinu sem á ensku hefur gengið undir orðunum „comply or explain“, þ.e. menn eiga annaðhvort að gera eins og tilmælin segja fyrir um eða gefa skýringar á því hvers vegna ekki er farið að tilmælunum. Í þessu þykir vera mikið aðhald með viðkomandi stofnunum sem ætti eitt og sér að tryggja árangur eða eftir atvikum gefa ráðinu og viðkomandi stofnunum frekara tilefni til að bregðast við. Þau viðbrögð geta að sjálfsögðu verið með ýmsum hætti.

Í athugasemdum um 6. gr. er tilgreint dæmi: Sem dæmi um ráðstafanir sem gripið kann að vera til ef eftirlitsskyldur aðili getur ekki staðið við skuldbindingar sínar er að Fjármálaeftirlitið grípur til inngripsheimilda sinna og gerir viðkomandi að afsetja tiltekna rekstrareiningu o.s.frv. Þetta eru svona meiri háttar ráðstafanir, sem auðvitað verða aldrei nefndar nema í dæmaskyni í svona frumvarpi, sem gæti komið til ef þær aðstæður sköpuðust.

Ástæða er til að nefna það sérstaklega í þessu samhengi að gera má ráð fyrir að eftirlitsaðilarnir muni í flestum tilvikum þá þegar hafa gripið til slíkra ráðstafana og það verði hlutverk fjármálastöðugleikaráðsins að hafa eins konar heildaryfirsýn með atburðarásinni, en það getur líka verið raunin eins og ég er hér að rekja að frumkvæði komi beinlínis frá fjármálastöðugleikaráðinu og það verður að gera ráð fyrir að þær aðstæður skapist.

Gagnaöflun. Að sjálfsögðu er það ein kjarnagrein frumvarpsins, þ.e. 9. gr., sem kveður á um möguleika ráðsins til að afla sér gagna sem eru nauðsynlegar vegna hlutverks nefndarinnar eða ráðsins og hvernig eigi að fara með þær upplýsingar. Samspil þessarar greinar og þeirrar hugmynda sem hafa komið fram í umræðunni um að ráðið gæti jafnframt deilt sýn sinni á kerfið með þingmönnum stjórnarandstöðunnar, eða öllu heldur leiðtogum stjórnarandstöðunnar, með einhverjum hætti, eftir atvikum viðkomandi þingnefnd, hefur ekki verið útfært hér. Ég tel að það geti verið töluvert viðkvæmt mál í framkvæmd að ná utan um það og vil þá vekja athygli á 10. gr. sem fjallar um ákveðið gagnsæi í störfum fjármálastöðugleikaráðs. En ég hef ekkert á móti því að menn skoði þetta frekar í nefndarstarfinu, hvort það væri mögulegt án þess að ógna þeim tilgangi sem 9. gr. á að fullnægja, að opna fyrir einhvers konar samtal við erfiðar aðstæður við stjórnarandstöðu. En almenn upplýsingaskylda gagnvart þingi eða stjórnarandstöðu er ekki skrifuð inn í frumvarpið. Ég hef litið þannig á að það gegnsæi sem ríkir um störf nefndarinnar, þ.e. fjármálastöðugleikaráðsins, ætti að vera fullnægjandi í þessum efnum. Þó skal ég taka fram að ef viðlíka aðstæður og sköpuðust hér á haustmánuðum 2008 kæmu upp get ég tekið undir það að samráð við þingið yrði algerlega nauðsynlegt fyrir eðlilegan framgang mála líkt og gerðist og var rakið hér í umræðunni.

Í 10. gr. er gert ráð fyrir að ríkisstjórn sé haldið upplýstri. Fram kom í umræðunni að það kynni að vera nauðsynlegt að formaður ráðsins hefði skyldu til upplýsingagjafar gagnvart ríkisstjórn. Það er gert ráð fyrir því í frumvarpinu.

Að lokum vil ég nefna að töluvert mikil vinna liggur að baki þessu máli, nefndarstarf um þó nokkuð langt skeið. Ég vil þakka þeim sem hafa komið að undirbúningi málsins og fagna því að málinu sé vel tekið í þinginu. Það er því miður svo að þrátt fyrir að við stórbætum lagaumgjörðina með fjármálakerfinu í landinu er hætt við því að við getum engu að síður einhvern tímann í framtíðinni lent í áföllum, en vonandi mun lagaumgjörðin, betri umgjörð sem tryggir betri heildaryfirsýn, og meira samráð verða til þess að við getum varið það sem hægt er að verja þegar slíkir atburðir gerast og þannig verði skaðinn lágmarkaður. En við getum því miður ekki komið í veg fyrir fjármálaáföll til allrar framtíðar ef við ætlum að reka hér opið markaðshagkerfi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar og síðan til 2. umr.