143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Mér er nokkur vandi á höndum, ég hafði beðið formann efnahags- og viðskiptanefndar, Frosta Sigurjónsson, að ræða við mig skuldamálin og 1. apríl en hv. þingmaður gat því miður ekki orðið við því svo ég verð bara að ræða við aðra viðstadda framsóknarmenn.

Það er eðlilegt að Framsóknarflokkurinn vilji ekki ræða 1. apríl frumvörpin þann 1. apríl því að heimsmetið er orðið að héraðsmeti. 300 milljarðarnir eru orðnir að 72 milljörðum, 20% eru orðin að 5,7%. Forsendubrestur heimilanna í landinu í efnahagshruninu er (Gripið fram í.) 275 þús. kr. á ári að meðaltali á heimili næstu fjögur ár.

Ekkert afnám verðtryggingar. Ekkert lyklafrumvarp. Og hvar er reiknivélin sem stjórnarflokkarnir lofuðu að allir gætu fundið á internetinu og reiknað út (Gripið fram í.)hvernig kosningaloforð Framsóknarflokksins yrðu efnd? Það er engin reiknivél komin vegna þess að Framsóknarflokkurinn þorir einfaldlega ekki að gangast við því að efndirnar eru ekki nema 25%. Þó að það séu að vísu nokkrar efndir eru 25% efndir 75% svik. (Gripið fram í: Akkúrat.) (HöskÞ: Það var aldrei lofað 300 milljörðum, Helgi, þú veist það vel.)