143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Á föstudaginn síðasta bárust starfsmönnum fyrirtækja á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri þau tíðindi, án nokkurs fyrirvara, að tekin hefði verið sú ákvörðun að þau fyrirtæki sem þau unnu hjá, fiskvinnslur Vísis, yrðu lögð niður á stöðunum og starfsemin flutt suður í Grindavík.

Þetta eru grafalvarleg tíðindi fyrir þessi byggðarlög. Ef ég beini sjónum að Húsavík sérstaklega kom áðan fram í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar að Húsavík fyndi kannski minnst fyrir þessu þar sem þar væri vonandi uppbygging fram undan. En þá má segja að búið sé að slá út af borðinu í fyrstu lotu 50 störf sem þar mundu skapast.

Ég vil bara vekja athygli á því að svona reiðarslag fyrir öll þessi byggðarlög hefur ekki bara áhrif á þá 50 eða 60 starfsmenn sem vinna hjá hverju fyrirtæki fyrir sig heldur hefur þetta áhrif á fjölskyldur þeirra, afkomendur og ættingja, og í sumum tilfellum erum við að tala um fólk af erlendu bergi brotið sem hefur flutt til Íslands, keypt sér eignir, ákveðið að setja sig niður á þessum stöðum og búa til framtíðar. Þangað hafa jafnvel flutt ættingjar þessa fólks þannig að þetta setur allt í uppnám í þessum samfélögum. Svo hefur þetta auðvitað margfeldisáhrif út í samfélögin.

Ég tek undir með Lilju Rafneyju og skora á fyrirtækið Vísi að endurskoða þessa afstöðu því að þó að það hafi boðist til að flytja allt þetta fólk til Grindavíkur verður það ekki gert sisona. Fólk fer ekkert frá eignum sínum (Forseti hringir.) né makarnir þeirri atvinnu sem þeir hafa.