143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í fyrrakvöld horfðu hvorki meira né minna en 137 þús. manns á beina útsendingu af leikritinu Englum alheimsins á RÚV. Slíkar áhorfstölur minna helst á það sem við sjáum í tengslum við stórleiki á helstu íþróttamótum. Þetta er gríðarleg stuðningsyfirlýsing við bæði Þjóðleikhúsið og Ríkisútvarpið, tvær af okkar mikilvægustu menningarstofnunum, stofnunum sem báðar eru í samfélagslegri eigu og reknar fyrst og fremst fyrir fé úr sameiginlegum sjóðum.

Ljóst er að almenningur tekur því fagnandi þegar þessir hornsteinar í menningarlífi okkar geta boðið upp á svo metnaðarfullt efni. Illu heilli hefur núverandi ríkisstjórn boðað að á næstu árum verði undið ofan af starfsemi Ríkisútvarpsins og annarra menningarstofnana sem væntanlega mun gera þeim erfiðara fyrir í framtíðinni að ráðast í slík stórvirki eins og að sýna svona beint.

Undirtektir þjóðarinnar á sunnudaginn hljóta því að vera fagnaðarefni fyrir okkur en um leið umhugsunarefni fyrir alla þingmenn, þó einkum fulltrúa í fjárlaganefnd — og reyni ég nú að horfa sérstaklega til hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, og bið hana að taka þetta svolítið til sín og sinnar nefndar — og ekki síður yfirvöld menningarmála um að standa sérstaklega vörð um bæði Ríkisútvarpið og Þjóðleikhúsið í framtíðinni svo við fáum meira af svona afbragðssjónvarpsefni.