143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það gleður mig stórlega að hv. þm. Guðbjartur Hannesson skuli fylgjast svona vel með því sem ég segi í fjölmiðlum. (Gripið fram í.) Það er efnislega rétt eftir haft sem hér kom fram. Það sem ég ætla að segja um verðbólguáhrifin er að þetta þarfnast ákveðinnar skýringar og ég hef þessar stuttu tvær mínútur til þess.

Í þessu landi eru starfandi tvö hagkerfi, þ.e. raunhagkerfið og hagkerfi slitabúanna. Krónueign slitabúanna er stórhættuleg. Sú fjármögnun sem á sér stað á þessari skuldalækkun kemur til greiðslu af krónueign slitabúanna. Sú krónueign hefur verið talin vandamál, það er ekki hægt að skipta henni yfir í erlendan gjaldeyri, hún hefur nákvæmlega sömu áhrif hvort heldur hún fer í erlendum gjaldeyri beint út úr slitabúunum eða inn í raunhagkerfið. Það eru þessi verðbólguáhrif sem ég tel stórlega vanmetin og ég tel jafnvel að önnur reikningsskekkja leiði til verðbólguskekkjunnar í fyrstu skýrslunni. Ef þetta er rétt hjá mér koma þessi áhrif fram úti í öllu samfélaginu. Ef hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur verður að ósk sinni um að verðtrygging hverfi segi ég ósköp einfaldlega: Það kemur eitthvað í staðinn.

Vextir lækka ekki sem nemur verðbólguálagi. Það er kannski hægt í lokuðu hagkerfi þar sem enginn á flóttaleið en þá er líka allur sparnaður orðinn skattur, eignarnám.

Ég hef ekki öðru við þetta að bæta en reikna með því að á milli umræðna verði aðrir aðilar en Analytica látnir meta verðbólguáhrifin og þá kemur hið sanna í ljós. Og kannski er þetta allt saman tóm vitleysa í mér.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.