143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og vænti þess að hann bæti við í síðara andsvari sínu. Ég held að það sé mikilvægt sem ráðherra nefnir, að hugað sé að löggjöfinni um listnámið almennt. Auðvitað er það þannig, og hæstv. ráðherra er sjálfur framúrskarandi dæmi um það, að tónlistarskólarnir okkar hafa náð einstæðum árangri í uppeldisstarfi sínu og mikilvægt að standa vörð um þær stofnanir og þann árangur sem þar hefur náðst, en um leið verða þeir að þróast með samfélaginu.

Skólakerfið okkar allt hefur verið að taka miklum breytingum. Skóladagurinn hjá grunnskólabörnum er að verða samfelldur og óskir um að börn geti sótt bæði nám og tómstundir á einum stað, eða alla vega á auðveldan hátt í heimahverfi sínu, verða æ ríkari. Ég held að það séu eðlilegar nútímakröfur og að mikilvægt sé að reyna að tryggja sem almennast aðgengi að þessu námi, vegna þess að það eru gríðarleg forréttindi í að fá að leggja stund á tónlistarnám og getur hjálpað þeim, sem það gera, við allt annað nám í skólunum. Þeim mun fleiri sem okkur tekst að skapa aðgengi fyrir í þetta nám þeim mun betra. Til þess þarf lagaramminn að sjálfsögðu að vera miklu betur úr garði gerður en var þegar þetta byrjaði að mörgu leyti sem einkaframtak og framtak hjá sjálfseignarstofnunum í listdanskennslu og eins og ráðherra segir réttilega, ekki bara í tónlistarkennslu heldur líka í listdansi og myndlistarkennslu og ýmsu öðru.