143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þetta frumvarp. Í sjálfu sér er ánægjulegt að hér skuli vera framlengdur gildistími samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms. Á sama tíma vekur það athygli, og mig langar að eiga aðeins orðastað við hæstv. ráðherra um það, að mörg af þeim stóru málum sem við ættum að vera að ræða í þinginu eins og t.d. varðandi framhaldsskólann eru hér ekki á dagskrá. Nú er það að gerast uppi í Karphúsi að menn eru að ákveða framtíð framhaldsskólans án þess að löggjafinn eða þjóðin komi á neinn hátt að þeim breytingum.

Ástæðan fyrir því að maður kemur hér kannski illa undirbúinn er að dagskránni var breytt, stóra leiðréttingarmálið tekið út og þessu máli skellt á dagskrá. Í morgun var svo allsherjar- og menntamálanefnd að ræða málefni Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar fylgjumst við bara með því í fjölmiðlum hvernig tekist er á um framtíð þess skóla. Annars vegar eru loforð um gull og græna skóga ef af sameiningu verður og hins vegar hótanir um verulegar skerðingar ef ekki verður af henni.

Það sem mig langaði að spyrja um var í fyrsta lagi: Af hverju er þetta samkomulag tímabundið og á bara að gilda út þetta ár? Er einhver ágreiningur í málinu eða eru einhver önnur áform uppi varðandi það? Hver er þá helsti ágreiningurinn ef hann er einhver? Mig langar líka að heyra frá hæstv. ráðherra um skilin á milli sveitarfélaga og ríkisins. Það er rétt sem hæstv. ráðherra vakti athygli á að það þótti mikilvægt að taka utan um það vandamál að menn verði ekki háðir hreppamörkum varðandi framhaldsnám í tónlist. Ég tek heils hugar undir með honum í því. Eru þessi gráu svæði þarna á milli leyst eða er enn þá verið að rukka þegar menn fara á milli svæða þrátt fyrir þetta? Ég vil byrja á að spyrja um þetta.