143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin og tel að það hafi komið mjög skýrt fram að af hálfu ríkisvaldsins var sú stefnumótun skýr að um var að ræða viðbótarfjármagn til að efla tónlistarstarfið og tónlistarskólastarfið á framhalds- og miðstigi. Það hlýtur því að valda vonbrigðum fyrir okkur sem erum ríkisins megin að sá skilningur skuli vera til staðar, til dæmis hjá Reykjavíkurborg, að þar með hafi myndast tækifæri fyrir borgina að draga til baka fjármuni. Það er, eins og ég skil svar hv. þingmanns, þvert á það sem samkomulaginu var ætlað að ná fram, þvert á alla forsögu málsins, eðli þess og efni. Þess vegna vonast ég til þess, þegar fyrir liggur að mikil vandamál eru uppi hjá tónlistarskólunum, m.a. í Reykjavík, að Reykjavíkurborg endurskoði þá afstöðu sína.

Ég vildi gjarnan fá að heyra frá hv. þingmanni hvort hún sé ekki sammála mér um að æskilegt sé að borgin endurskoði afstöðu sína og leggi fram fjármuni til að efla tónlistarskólana, þá í Reykjavík, sem eru mjög mikilvægir í öllu tilliti, mikilvægt að þeir skólar séu öflugir, að þeir geti sinnt hlutverki sínu, en það gerist ekki nema auknir fjármunir verði látnir renna til verkefnisins og það standi upp á Reykjavíkurborg að gera það.