143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[15:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það geti orðið ágætur samhljómur um þetta mál í þinginu, að allar forsendur séu til þess. Það skiptir miklu máli að það sé þá um leið góður samhljómur við Samband íslenskra sveitarfélaga um málið.

Eitt af þeim atriðum sem mun reyna á og er grundvallaratriði er þetta: Viljum við hafa áfram þá skipan mála að sveitarfélögin sjái um þennan rekstur sem er í nokkru frábrugðinn þeirri meginreglu sem við höfum, að ríkisvaldið sér um nám á framhaldsstigi, eða viljum við breyta um kúrs og beita okkur fyrir því að það verði samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga um að ríkið taki að sér þetta skólastig og til samræmis við það sem almennt gerist? Ég tel að gagnlegt væri fyrir þann undirbúning að fá fram afstöðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar um málið þar sem hann er auðvitað einn af þeim sem hér á þingi hafa hvað mest fjallað um menntamál. Ég hef bent á það áður í umræðunni að fyrir liggja drög að frumvarpi í ráðuneytinu sem hafa verið í vinnslu lengi, mörg ár, um tónlistarskólana en ég tel nauðsynlegt í ljósi þessarar reynslu, í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur að það verði í það minnsta skoðað og farið nákvæmlega ofan í þann þátt málsins sem ég var að lýsa. Ég vona að ég fái aðeins skýrari svör frá hv. þingmanni um afstöðu hans til þeirrar spurningar sem ég velti hér upp.