143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[15:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísa á athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins, þ.e. athugasemd við 9. gr. hvað varðar það sem hér kom síðast fram af hálfu hv. þingmanns, en það er mjög áhugavert mál sem snýr að munnlegri geymd. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Mikilvægt er að tryggja þátttöku almennings við skráningu örnefna þannig að staðkunnugu fólki sé gert kleift með auðveldum hætti að staðsetja örnefni út frá örnefnalýsingum á réttan stað og jafnframt að ekkert sé því til fyrirstöðu að getið sé um fleiri en eitt örnefni í slíkum gagnagrunni þó svo að eitt örnefni liggi til grundvallar í opinberum örnefnagrunni skv. 1. mgr. Þetta stuðlar að bættri varðveislu á menningararfi Íslendinga.“

Hvað varðar síðan aðkomu þess ráðherra sem fer með skipulagsmál þá er eitt megineinkenni þessa frumvarps að færa sveitarfélögin nær þessu verkefni. Þar með skiptir auðvitað máli sá ráðherra sem fer með skipulagsmál og málefni sveitarfélaganna. Ég tel að tekið sé á því með ágætum hætti í frumvarpinu.

Hvað varðar Landmælingar og þann gagnagrunn þá er kveðið á um það í 9. gr. frumvarpsins og lögð áhersla á samstarf Landmælinga Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar um viðhald og uppbyggingu þessa grunns, og síðan það sem hv. þingmaður vekur athygli á, að sá ráðherra sem fer með skipulagsmál og reyndar einnig mennta- og menningarmálaráðherra skuli með reglugerðum kveða nánar á um innihald, skráningu og tilhögun örnefnagrunnsins samkvæmt þessari grein.

Þá vil ég aftur vísa til athugasemda — nú sé ég að tími minn er runninn út — þar sem einmitt eru gefnar skýringar á þessu.