143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[16:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og tek undir það að í markmiðsgreininni er vissulega komið inn á það að markmiðið sé að stuðla að verndun örnefna. Ég vil hins vegar segja og tek undir með hæstv. ráðherra að hér er umgjörðin í kringum verkefnið komin. Hún er mjög góð og mjög jákvæð og ég geri ekki athugasemdir við hana með þeim fyrirvara þó að eitthvað kunni að koma upp í meðförum nefndarinnar. En ég held að setja verði ákveðið átak af stað í því að safna örnefnum og vil aftur hvetja hæstv. ráðherra til þess að skoða það sérstaklega innan ráðuneytis síns, og nefndina líka, hvernig hægt sé að gera átak í þá veruna. Enn og aftur tek ég dæmi af þeim ágæta bónda sem er búsettur í Dalasýslu og tók sig til og skrásetti öll örnefni á jörð sinni, sem var gríðarlegt magn af örnefnum. Það fékk mann til að hugsa: Hversu mikið af örnefnum er óskráð með sambærilegum hætti? Hversu mikið er í húfi að skrá örnefni? Hversu mörg örnefni glatast á ári hverju? Eða skiptir þetta okkur kannski engu máli í nútímasamfélagi þar sem við erum komin með GPS, GPS-hnit o.s.frv.?

Ég held að þetta skipti miklu máli. Ég held hins vegar að samtíminn eins og hann er meti þetta kannski ekki svo að þetta skipti neinu máli eða kannski ekki nægilega miklu máli. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra og hv. nefnd til að skoða þetta sérstaklega og sett verði af stað einhvers konar átak í því að skrásetja örnefni vítt og breitt um landið.