143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[16:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. aðstoðarmanni forsætisráðherra fyrir ræðu hans og brýninguna að við séum að glata mikilvægum menningarverðmætum með þeirri kynslóð sem er að ganga, ég held að hún eigi fullan rétt á sér. En ég hlýt þá að velta fyrir mér hvers vegna forsætisráðuneytið féll frá því að skilgreina þetta verkefni sem þjóðmenningu. Sem kunnugt er var ákveðið við ríkisstjórnarmyndunina að forsætisráðherra tæki úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu þau verkefni sem féllu undir þjóðmenninguna og færði hana til sín og gott að heyra skýringar hæstv. aðstoðarmanns á þessu atriði.

(Forseti (SJS): Forseti vill minna á að það ber að ávarpa þingmenn fullu nafni eða kenna þá við kjördæmi sitt ef vísað er til þeirra í þingsalnum.)

Ég þakka virðulegum forseta fyrir ábendinguna.

Þá vildi ég spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann er jú áhrifamaður í stjórnarliðinu í hv. fjárlaganefnd, hvort hann hafi tekið upp þetta mikilvæga mál í fjárlaganefnd, sem hann vekur hér athygli á, að nauðsynlegt sé að fjárlaganefnd þingsins ráðstafi fjármunum til að tryggja það að þessi menningarverðmæti glatist ekki og veiti fjármuni til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem þingmaðurinn er hér að brýna til verka. Ef svo er ekki, af því að auðvitað er hægt að hafa skilning á því að þetta hafi ekki komist á dagskrá hjá þingmanni fyrr en við umræðuna í dag, hvort hann hafi í hyggju að taka málið upp í fjárlaganefnd og leggja þar til að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fái þá fjármuni sem hann þarf til að efla starf á þessu sviði, sem ég er viss um að hæstv. ráðherra gjarnan vill.