143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[16:08]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeim sem hér stendur er ekki kunnugt um hvers vegna þetta er innan forsætisráðuneytisins en ekki menntamálaráðuneytisins. Það er auðvitað margt sem hægt er að skilgreina sem þjóðmenningu.

Líkt og ég rakti í máli mínu áðan hefur sá sem hér stendur skilning á mikilvægi forgangsröðunar fjármuna. Það var auðvitað svo við síðustu fjárlagagerð að sérstaklega var lögð áhersla á að geta veitt aukið fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar í landinu, þeirra mála, löggæslunnar o.s.frv. Hins vegar eru þessi mál mikilvæg og þau ber að skoða og varðveita örnefnin. En vissulega voru önnur mál sem þörfnuðust fjármuna, það kom fram í ræðu þess sem hér stendur. En engu að síður er það svo að manni leyfist jú að hafa skoðanir á málum, þeim sem hér stendur leyfist auðvitað að hafa þá skoðun að mikilvægt sé að skrásetja örnefni í landinu. Við viðurkennum öll, og ég veit að hv. þingmaður er sammála mér um það, að við síðustu fjárlagagerð var náttúrlega langmikilvægast að geta veitt aukið fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar í landinu. (Gripið fram í: … byggingar.)